Gríðarleg skógareyðing vegna pálmaolíu

Verulega hefur þrengt að búsvæðum órangútana vegna framleiðslu pálmaolíu.
Verulega hefur þrengt að búsvæðum órangútana vegna framleiðslu pálmaolíu. AFP

Wilmar International, umfangsmesti söluaðili pálmaolíu í heiminum, stundar enn eyðingu skóga í Indónesíu þrátt fyrir að hafa heitið því fyrir fimm árum að hætta skógarhöggi í regnskógum eyjaklasans. Þetta segja talsmenn Greenpeace sem fylgst hafa með gangi mála.  

Fyrirtækið er skráð í Singapúr og tengjast eigendur þess eigendum Gama, stærsta framleiðanda pálmaolíu í Indónesíu, fjölskylduböndum. Greenpeace segir að Gama hafi eytt skógum í Indónesíu sem nemi tvöfaldri stærð Parísarborgar. 

Gama var stofnað af stofnanda Wilmar og bróður hans árið 2011. Það eru svo ættingjar þeirra sem stjórna fyrirtækinu að sögn Greenpeace.

Hafa kortlagt svæðið

Náttúruverndarsamtökin hafa kortlagt landsvæði með gervitunglamyndum og segja niðurstöðuna þá að Gama hafi eyðilagt 21.500 hektara lands í regnskóginum síðustu fimm árin eða á þeim tíma sem Wilmar hét því að hætta skógarhöggi í Indónesíu.

„Árum saman hafa Wilmar og Gama unnið saman, Gama hefur unnið skítavinnuna svo að hendur Wilmar séu hreinar,“ segir Kiki Taufik, verkefnastjóri Greenpeace í Suðaustur-Asíu. „Wilmar verður að hætta viðskiptum við alla framleiðendur pálmaolíu sem geta ekki sannað að þeir séu ekki að eyðileggja regnskógana.“

Wilmar svaraði ekki fyrirspurn AFP-fréttastofunnar um málið er eftir því var leitað. Greenpeace segir forsvarsmenn fyrirtækisins afneita öllum tengslum við Gama. 

Pálmaolíu má finna í fjölmörgum neysluvörum s.s. kexi, hársápu og snyrtivörum. 

Vaxandi eftirspurn

Eftirspurnin hefur verið vaxandi og það leiddi til þess að iðnaður í kringum framleiðsluna hefur vaxið hratt í Indónesíu en hvergi í heiminum er olían framleidd í jafnmiklum mæli og þar. 

Náttúruverndarsamtök hafa lengi sakað framleiðendur pálmaolíunnar um umhverfisspjöll. Mörg fyrirtæki hafa brugðist við með því að gera sáttmála um að hætta skógareyðingu en náttúruverndarsamtök segja þau mörg hver ekki standa við hann. 

Skógareyðingin hefur margvísleg umhverfisáhrif. Regnskógarnir í Indónesíu fóstra fjölbreytt og einstakt dýralíf. Þegar skógarnir eru brotnir undir akra eru þeir brenndir og við það myndast mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Skógarnir binda auk þess slíkar lofttegundir svo að úr þeim áhrifamætti þeirra hefur nú verulega dregið. 

Þá eru regnskógarnir heimkynni sjaldgæfra dýrategunda á borð við órangútana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert