Myrtir vegna sögusagna á WhatsApp

Yfir 20 hafa verið teknir af lífi án dóms og …
Yfir 20 hafa verið teknir af lífi án dóms og laga vegna gruns um barnsrán á tveggja mánaða tímabili á Indlandi. AFP

Tvöþúsund manns réðust að hinum 27 ára Mohammad Azam og tveim­ur vin­um hans á föstu­dag. Vin­ir Azam særðust al­var­lega í árás­inni, aðeins nokkr­um dög­um eft­ir að sam­skipta­for­ritið What­sApp birti aug­lýs­ing­ar í ind­versk­um dag­blöðum um það hvernig hamla mætti dreif­ingu falskra upp­lýs­inga í for­rit­inu. Yfir 20 hafa verið tekn­ir af lífi án dóms og laga vegna gruns um barns­rán á tveggja mánaða tíma­bili í Indlandi, að því er Guardian greinir frá.

Fimm manns voru tekn­ir af lífi skammt frá þeim stað sem Azam var myrt­ur 1. júlí, en þeir höfðu sést eiga sam­skipti við barn á götu­markaði. Hrina af­taka án dóms og laga vegna gruns um barn­arán hófst í maí, þegar sjö menn voru myrt­ir vegna orðróms á What­sApp. Síðan þá hefur að minnsta kosti 21 verið drep­inn af þess­um sök­um. Stjórn­völd í Indlandi hafa gagn­rýnt sam­skipta­for­ritið fyr­ir að koma ekki í veg fyr­ir að fölsk­um upp­lýs­ing­um sé dreift meðal not­enda.

Gáfu börnum súkkulaði frá Katar

Sam­kvæmt lög­reglu voru Azam og fé­lag­ar hans á heim­leið til borg­ar­inn­ar Hyder­bad eft­ir að hafa heim­sótt vin sinn í Bi­dar. Þeir stöðvuðu för sína á miðri leið til þess að bjóða börn­um á svæðinu súkkulaði sem einn þeirra hafði keypt í Kat­ar.

Eitt barn­anna í hópn­um byrjaði hins veg­ar að gráta, sem vakti grun hjá þeim full­orðnu um að ekki væri allt með felldu. Menn­irn­ir þrír voru þá sakaðir um að vera barn­a­ræn­ingj­ar, en ný­lega hafði komið upp orðróm­ur á sam­fé­lags­miðlum um skipu­lagða barn­aráns­starf­semi á svæðinu.

Azam og fé­lag­ar hans náðu að flýja svæðið, en á þá réðst mun stærri hóp­ur fólks aðeins nokkr­um kíló­metr­um frá eft­ir að fólk í ná­grenn­inu hafði deilt at­vik­inu sín á milli á What­sApp. Bíll mann­anna valt vegna vegtálma sem hafði verið sett­ur upp af þeim sem höfðu heyrt af för mann­anna, og í kjöl­farið réðust 2.000 manns að þeim og börðu með spýt­um og stein­um.

Þrír lög­reglu­menn særðust í björg­un­araðgerðum, en of­beldið stóð yfir í um klukku­stund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert