Reyndu að stela múrsteinum í Auschwitz

Aðalinngangurinn í útrýmingarbúðirnar alræmdu Auschwitz.
Aðalinngangurinn í útrýmingarbúðirnar alræmdu Auschwitz. Ljósmynd/Wikipedia

Tveir ungverskir ferðamenn á fertugsaldri voru í dag dæmdir í eins árs skilorðsbundið fangelsi í Póllandi og til greiðslu sektar að andvirði 45 þúsund krónur hvor fyrir að hafa reynt að stela múrsteinum í Auschwitz-útrýmingarbúðunum. 

AFP greinir frá því að 30 ára kona og 36 ára karlmaður hafi verið gómuð við iðjuna þar sem þau settu múrsteina í poka í gær en það voru aðrir ferðamenn sem komu auga á verknaðinn og létu öryggisgæslu á svæðinu vita.

„Maðurinn og konan voru ákærð fyrir stuld á menningarverðmætum. Þau hafa bæði játað brot sitt,“ sagði upplýsingafulltrúi lögreglunnar á svæðinu, Mateusz Drawl.

„Þau útskýrðu að þau hefðu viljað taka með sér minjagrip og segjast ekki hafa áttað sig á afleiðingum gjörða sinna,“ sagði hann í samtali við pólsku fréttastofuna PAP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert