„Ríkisstjórn Bandaríkjanna rændi börnunum okkar“

Hópur fólks mótmælir innflytjendastefnu Donalds Trump í Austin í Texas …
Hópur fólks mótmælir innflytjendastefnu Donalds Trump í Austin í Texas fyrir nokkrum vikum. AFP

Hópur fullorðinna, sem er í haldi í búðum innflytjenda í Texas, skrifar í opnu bréfi að börn þeirra þekki ekki lengur raddir þeirra, þeim finnist þau yfirgefin og án ástar og umhyggju. Fólkið varð allt fyrir því að börn þeirra voru tekin af því við komuna yfir landamærin frá Mexíkó. Beinir fólkið orðum sínum til þeirra Bandaríkjamanna sem vilja aðstoða þau við að sameinast börnum sínum á ný.

Fólkið segir í bréfi sínu að það sé ekki glæpamenn en hafi komið til Bandaríkjanna til að bjarga lífi sínu og barna sinna. „Við áttum ekki von á þeirri martröð sem við blasti. Ríkisstjórn Bandaríkjanna rændi börnunum okkar með blekkingum og leyfði okkur ekki að kveðja þau.“

Þekkja ekki raddir foreldranna

Í bréfinu, sem birt er á vef CNN, segir að foreldrarnir hafi fengið litlar upplýsingar um börnin sín í yfir mánuð. Þau segja börnin vera með ókunnugum. „Hver dagur er þjáningarfyllri en sá síðasti. Mörg okkar hafa aðeins getað talað við börnin okkar einu sinni því að félagsráðgjafarnir svara aldrei. Börnin gráta, þau þekkja ekki raddir okkar og þeim finnst þau hafa verið yfirgefin og vera án ástar og umhyggju. Okkur líður eins og við séum dáin.“

Í frétt CNN er m.a. rætt við lögmann sem segist hafa áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur haft á börnin að vera aðskilin frá foreldrum sínum. Hann segist hafa orðið vitni að því er dauðskelkað barn var leitt í gegnum málmleitartæki. Hann segir drenginn hafa rekið upp örvæntingaróp er hann var settur í röð ásamt öðrum við tækið. „Þessi litli drengur var í miklu áfalli,“ segir lögfræðingurinn Jodi Goodwin. Að endingu hafi orðið að hjálpa honum í gegnum tækið þar sem hann gat ekki gengið.

Goodwin segir að endurfundir við foreldra séu einnig erfiðir fyrir alla aðila. Hún segir börnin standa grafkyrr í stað þess að hlaupa í faðm foreldranna. Þau sýni engar tilfinningar.

Um 2.500 börn hælisleitenda eru enn aðskilin frá foreldrum sínum. Samkvæmt dómsúrskurði á að vera búið að sameina fjölskyldurnar á ný 26. júlí. Mörg barnanna hafa því verið aðskilin frá foreldrum sínum vikum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert