Segist ætla spyrja út í tölvuárásirnar

Donald Trump Bandaríkjaforseti við komuna til Helsinki í morgun.
Donald Trump Bandaríkjaforseti við komuna til Helsinki í morgun. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að spyrja Vladimir Pútín Rússlandsforseta út í rússnesku leyniþjónustumennina tólf sem hafa verið ákærðir fyrir að brjótast inn í tölvukerfi flokks­manna Demó­krata­flokks­ins í aðdrag­anda for­seta­kosn­ing­anna í Banda­ríkj­un­um 2016.

Í viðtali við CBS fréttastöðina á laugardag var forsetinn spurður hvort hann myndi bera ákærurnar undir Pútín á fundinum í dag. „Ég gæti gert það. Ég hef ekki hugsað út í það, en klárlega mun ég spyrja út í það.“

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, hefur staðfest að leiðtogarnir tveir hafi komið sér saman um það að engin fyrirframákveðin dagskrá verði á fundinum. Samkvæmt vef BBC telur Bolton það þó ólíklegt að Pútín viti ekki að meintar tölvuárásir Rússa fyrir forsetakosningarnar 2016 verði til umfjöllunar.

Á blaðamannafundi eftir fund Trump og Theresu May í London í síðustu viku sagði forsetinn að rætt yrði um borgarastyrjöldina í Sýrlandi og um önnur hitamál í Mið-Austurlöndum. Einnig er líklegt að innlimun Krímskagans verði til umfjöllunar sem og afkjarnorkuvopnavæðing á Kóreuskaganum.

Í viðtali sínu við CBS sagðist Trump hafa „litlar væntingar“ fyrir fundinn í dag en tók fram að honum þyki jákvætt að þeir skuli vera að hittast. Fundur leiðtoganna tveggja fer fram í Helsinki í Finnlandi og kemur til með að hefjast innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert