Sprengihætta steðjar að slökkviliðsmönnum

Þyrlur losa vatn yfir skógareldana í Svíþjóð.
Þyrlur losa vatn yfir skógareldana í Svíþjóð. Ljósmynd/Slökkviliðið í Mora

Slökkviliðsmenn hafa í nótt barist við skógarelda í Brunnåsen í Älvdalen í Svíþjóð. Skotfæri eru talin leynast á skotsvæði í nágrenninu og hefur því sprengihætta tafið slökkvistörf.

Sex þyrlur frá Noregi hafa verið fengnar til aðstoðar við slökkvistarfið en skógareldar loga á nokkrum stöðum í landinu, segir í frétt sænska ríkisútvarpsins. Ekki hefur hins vegar þótt óhætt að fljúga norsku þyrlunum yfir eldana í Brunnåsen vegna fyrrgreindrar sprengihættu.

Slökkviliðsmönnum tókst að halda eldunum í skefjum í nótt en nú í morgun bætti í vind og sömuleiðis er sólin komin á loft. Slökkviliðsstjóri sem sænska ríkisútvarpið ræðir við hefur áhyggjur af ástandinu.

Mikill hiti og þurrkar eru víðs vegar í Svíþjóð og er ekki útlit fyrir að veðurspáin breytist á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert