Herða refsingar í kynferðisbrotamálum

Pedro Sanchez.
Pedro Sanchez. AFP

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hefur greint frá því að ríkisstjórn hans muni leggja fram frumvarp um ætlað samþykki í kynlífi. Verður það lagt fram til að koma í veg fyrir tvíræðni í kynferðisbrotamálum.

Í umfjöllun um málið segir að lögin séu svipuð þeim sem samþykkt voru í Svíþjóð í maí. Samkvæmt þeim er saknæmt að hafa kyn­mök við ein­hvern án þess að fylli­lega sé ljóst að viðkom­andi sé samþykk­ur. Samþykki telst vera ef viðkom­andi hef­ur sagt það ber­um orðum eða sýnt það með gerðum sín­um að hann vilji stunda kyn­mök. Ef ekki þá er það talið sak­næmt og skipt­ir engu hvort of­beldi hafi verið beitt eður ei.

Fjöldi fólks mótmælti þegar fimm karlmenn voru sýknaðir af því að hafa hópnauðgað 18 ára stúlku í and­dyri fjöl­býl­is­húss í Pamplona í júlí árið 2016. Þeir tóku at­vikið upp á mynd­band, deildu því á sam­skipta­for­rit­inu What­sApp og stærðu sig af gjörðum sín­um.

Menn­irn­ir voru all­ir sýknaðir af kyn­ferðis­legri árás, sem fel­ur í sér nauðgun, en dæmd­ir í níu ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot. Sam­kvæmt spænsk­um lög­um fel­ur það ekki í sér of­beldi eða ógn­un.

„Til að hafa hlutina á hreinu; nei þýðir nei og ef einhver segir ekki já þá þýðir það nei,“ sagði Sanchez á þingfundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert