Morðið á April litlu loks upplýst

April Tinsley var átta ára er hún hvarf. Lík hennar …
April Tinsley var átta ára er hún hvarf. Lík hennar fannst þremur dögum síðar.

Í þrjá áratugi hefur ránið, nauðgunin og morðið á hinni átta ára gömlu April Tinsley verið lögreglunni í Indiana ráðgáta. En nú er málið talið upplýst.

Morðið á April í aprílmánuði árið 1988 var óhugnanlegt. Morðinginn skyldi eftir sig handskrifuð skilaboð á næstu árum þar sem hann játaði ódæðið og hótaði því að drepa á ný. En hann náðist þó ekki fyrr en nýlega.

Málið var leyst með aðstoð nýstárlegra aðferða þar sem DNA-rannsóknir léku stórt hlutverk. Hann var handtekinn í kjölfarið og játaði á sunnudag að vera banamaður April. John D. Miller, sem er nú 59 ára gamall, hefur verið ákærður fyrir morð og barnaníð. 

Lögreglan bar saman DNA-sýni af vettvangi morðsins við upplýsingar úr ættfræðigagnabönkum. Niðurstöðurnar beindu sjónum þeirra að tveimur mönnum; Miller og bróður hans, að því er fram kemur í frétt CNN um málið.

Tekin voru sýni úr sorpi Millers sem staðfestu enn frekar tengslin. Er hann var svo tekinn til yfirheyrslu játaði hann verknaðinn. 

Ættfræðigagnagrunnar notaðir

Málið er eitt af mörgum sem hafa verið upplýst með þessum hætti að undanförnu. Oft finnst engin samsvörun milli erfðaefnis sem finnst á vettvangi og gagnagrunna á vegum yfirvalda. Hins vegar bjóða sífellt fleiri fyrirtæki fólki nú erfðafræðirannsóknir, m.a. þeim sem eru að leita foreldra sinna eða forfeðra. Lögreglan hefur svo nýtt sér gagnagrunna þessara fyrirtækja til að þrengja hringinn um meinta glæpamenn. 

Á föstudeginum langa árið 1988 var April Tinsley rænt er hún var á gangi um hverfið sitt í Fort Wayne í Indiana. Henni var nauðgað og hún svo myrt. Lík hennar fannst þremur dögum síðar á afskekktum stað.

Lögreglan hóf umfangsmikla rannsókn sem skilaði engum árangri. En tveimur árum síðar þá fundust skilaboð skrifuð á hlöðuvegg í nágrenni morðstaðarins. „Ég drap átta ára gömlu April Marie Tinsley ég mun drepa aftur,“ stóð þar skrifað með blýanti.

Fjórtán árum síðar fundust fjögur sambærileg skilaboð til viðbótar víðsvegar í Fort Wayne, m.a. ein á hjóli sem ung stúlka hafði skilið eftir í garði sínum.

Hótaði annarri stúlku

„Hæ elskan. Ég hef verið að fylgjast með þér og ég er sama manneskjan og rændi og nauðgaði og drap April Tinsley,“ stóð á skilaboðunum sem voru sem fyrr handskrifuð. „Þú verður mitt næst fórnarlamb.“ Einnig skildi morðinginn eftir notaðan smokk og við rannsókn kom í ljós að um sama erfðaefni var að ræða og fundist hafði á líki April litlu.

En svo var eins og jörðin gleypti morðingjann. Árið 2009 ákvað alríkislögreglan að aðstoða við að upplýsa málið en engar vísbendingar komu fram á þeim tíma. 

Í maí á þessu ári leitaði lögreglan í Fort Wayne til fyrirtækisins Parabon Nanolabs í Virginíu um DNA-rannsókn á lífssýnum sem tengd voru morðingjanum. Niðurstaðan gerði lögreglunni sem fyrr segir mögulegt að þrengja leitina. Hún rannsakaði í kjölfarið sorp við heimili Millers og fann í því þrjá notaða smokka. Lífsýni úr þeim passaði við það sem fannst á líki April.

Er lögreglan fór að heimili Millers til að yfirheyra hann var hann spurður hvers vegna hann héldi að lögreglumennirnir væru komnir. Hann svaraði: „April Tinsley.“

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert