Starfsmaður Macron réðst á mótmælendur

Alexandre Benalla (til hægri) sést hér með forsetanum.
Alexandre Benalla (til hægri) sést hér með forsetanum. AFP

Saksóknarar í Frakklandi hafa nú til rannsóknar einn af starfsmönnum Emmanuel Macron Frakklandsforseta, eftir að myndskeið náðist af honum ráðast að tveimur mótmælendum í Parísarborg á verkalýsdeginum fyrsta maí. 

Starfsmaðurinn, Alexandre Benalla, er aðstoðarmaður starfsmannastjóra Macron. Hann sér fyrst og fremst um öryggisráðstafanir fyrir opinber erindi forsetans. Hann var einnig yfir öryggismálum í kosningabaráttu Macron á síðasta ári.

Atvikið átti sér stað á vinsælum ferðamannastað í fimmta umdæmi borgarinnar og höfðu um það bil hundrað íbúar safnast saman í tilefni af verkalýðsdeginum. Fljótlega kom til átaka á milli mótmælenda og óeirðarlögreglu. 

Í myndskeiðinu sést Benalla bera hjálmgrímu lögreglu en er þó ekki í einkennisbúningi. Þá sést hann grípa um háls konu og draga hana niður nærliggjandi götu þar til þau hverfa bæði úr mynd.

Stuttu síðar kemur Benalla svo aftur á vettvang þar sem hann ræðst á mann sem liggur á jörðinni þegar Benalla kom að honum. Benalla sést grípa um háls mannsins, berja hann í höfðið og sparka svo í kvið hans þegar hann hneig niður á jörðina. Svo virðist sem lögreglan hafi ekki skorist í leikinn.

Samkvæmt talsmanni forsetans átti Benalla frídag og hafði verið gefið leyfi til að mæta á mótmælin og fylgjast með. Tilkynnt var um rannsókn málsins í dag og er hún samkvæmt vef BBC á upphafsstigi.

Myndskeið af atvikinu má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert