14 særðir eftir hnífaárás í Þýskalandi

Vettvangur árásinnar hefur verið girtur af.
Vettvangur árásinnar hefur verið girtur af. AFP

Fjórtán eru særðir, sumir alvarlega, eftir hnífaárás sem átti sér stað um borð í rútu í þýsku borginni Lübeck fyrr í dag. Rútan var á leiðinni til Travemuende, sem er vinsæl strönd í grennd við borgina.

Fjölmiðillinn Lübecker Nachrichten hefur það eftir vitnum að einn farþeganna, íranskur karlmaður á fertugsaldri, hafi skyndilega dregið upp eldhúshníf og byrjað að stinga aðra farþega í rútunni. 

Rútubílstjórinn mun þá hafa stöðvað rútuna samstundis og gefið farþegum tækifæri til að flýja. Lögreglubíll var staddur skammt frá og lögregla kom því skjótt á vettvang árásarinnar.

Lögreglan í Slésvík-Holtsetalandi hefur staðfest á Twitter-síðu sinni að árásarmaðurinn sé í haldi og bætti við að enginn hefði látist í árásinni.

Enn er óstaðfest hver maðurinn er eða hvað honum gekk til með árásinni.

Lübeck er í sambandsríkinu Slésvík-Holtsetalandi, nyrst í Þýskalandi.
Lübeck er í sambandsríkinu Slésvík-Holtsetalandi, nyrst í Þýskalandi. Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert