ESB hnippir í Dani vegna vörubílalaga

Austur-Jótlenska hraðbrautin, við Litlabeltisbrú nærri Fredericia. Víða eru hvíldarútskot fyrir …
Austur-Jótlenska hraðbrautin, við Litlabeltisbrú nærri Fredericia. Víða eru hvíldarútskot fyrir bílstjóra við danska þjóðvegi. Ljósmynd: Villy Fink Isaksen, Wikimedia Commons

Framkvæmdastjórn Evrópusambandins hefur gert athugasemdir við nýja lagasetningu í Danmörku, sem kveður á um að vörubílstjórar megi ekki stoppa á ríkisreknum hvíldarstöðvum við þjóðvegi landsins í meira en 25 klukkustundir.

Þetta segir ESB að mismuni erlendum vörubílstjórum á neikvæðan máta, í bréfi sem sent hefur verið danska samgönguráðuneytinu. Danska ríkisútvarpið greinir frá.

Tilgangur dönsku laganna, sem tóku gildi 1. júlí síðastliðinn, var að koma í veg fyrir að það myndaðist „útilegustemning“ á hvíldarstöðvum við þjóðveginn, þar sem erlendir vörubílstjórar hafa gjarnan gist í fleiri nætur og búið í bílunum á meðan, í því skyni að uppfylla reglur Evrópusambandsins um lögbundinn hvíldartíma.

Þeim tilmælum er beint til danskra stjórnvalda að fella lögin úr gildi.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur þessa nýju lagasetningu sem áður segir mismuna bílstjórum frá öðrum ríkjum sambandsins, þar sem danskir bílstjórar geti flestir farið heim til sín þegar þeim er gert að taka lengri hvíldarstopp.

„Þetta gerir það erfiðara fyrir erlend flutningafyrirtæki að flytja vörur til og frá Danmörku,“ segir í bréfi ESB til danskra yfirvalda og er því bætt við að reglurnar hafi skaðleg áhrif á öryggi erlendu bílstjóranna og umferðaröryggi almennt.

Munu Danir standa á sínu?

Danir hafa tvo mánuði til að bregðast við aðfinnslum ESB og var danska samgönguráðuneytið ekki tilbúið að veita DR svör vegna málsins er eftir því var leitað, að öðru leyti en því að brugðist yrði við bréfinu.

Samgöngumálaráðherra Danmerkur Ole Birk Olesen skrifaði hins vegar bréf til samgöngumálastjóra Evrópusambandsins, Violetu Bulc, í upphafi maímánaðar, þar sem hann fór yfir afstöðu danskra yfirvalda til hinna nýju laga.

Þar sagði ráðherra að Danir mætu það sem svo að það ætti ekki að vera krafa fyrir ríki ESB að bjóða upp á ókeypis aðstöðu þar sem vörubílstjórar gætu verið í meira en 25 klukkustundir.

„Í okkar augum eru ríkisreknu hvíldarstaðirnir við þjóðvegina þjónusta sem á að veita bílstjórum möguleika á pásu eða hvíld yfir daginn,“ sagði Olesen þá og bætti við að lengri hvíldarpásur atvinnubílstjóra gætu verið skipulagðar fleiri vikur fram í tímann.

Ráðgert að hækka sektirnar um áramót

Sektin fyrir að stoppa lengur en 25 klukkustundir á hvíldarstöðvum danska ríkisins er nú um 500 danskar krónur, eða rúmar átta þúsund íslenskar. Áætlað er að sektin hækki hins vegar upp í um 2000 danskar krónur um næstu áramót.

Þá verður dýrt fyrir atvinnubílstjóra að taka langar hvíldarpásur sig við dönsku hraðbrautirnar, ef Danir kjósa að standa fastir á sínu gegn tilmælum Evrópusambandins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert