Frumbygginn sást höggva tré

Á myndbandinu sést maðurinn höggva dré með öxi.
Á myndbandinu sést maðurinn höggva dré með öxi. Skjáskot/YouTube

Fágæt upptaka af frumbyggja djúpt inn í Amazon-skóginum hefur nú verið birt en maðurinn, sem er talinn á fimmtugsaldri, hefur líklega búið í skóginum einn síns liðs í 22 ár.

Á myndbandinu sést hann sveifla öxi og fella tré. Svo virðist sem hann sé við góða heilsu.

Í umfjöllun Guardian um myndbandið er haft eftir Altair Algayer, sem fer fyrir skrifstofu um málefni frumbyggja í Brasilíu, að frumbygginn virðist hafa það gott. Hann veiði sér til matar og rækti papaya. Algayer var með í för er myndbandið var tekið upp. 

Maðurinn er þekktur sem „frumbygginn í holunni“ en hann er talinn vera eini eftirlifandi úr einangruðum þjóðflokki sem hafðist við í skóginum. Hann veiðir villisvín sér til matar sem og fugla og apa. Til verksins notar hann boga og ör og gildrur. Gildrurnar eru búnar til með því að grafa holu í jarðveginn og koma þar fyrir beittum trjágreinum. 

Skógarhöggsmenn, bændur og landtökumenn myrtu og ráku á brott frumbyggja á svæðinu á áttunda og níunda áratugnum. Maðurinn er talinn vera sá eini úr sex manna hópi sem lifði af árás bænda árið 1995. 

Hann sást fyrst tárið 1996 og síðan þá hefur Funai, skrifstofa Algayers, haft auga með honum. Stefna Funai er sú að eiga ekki að hafa bein afskipti af frumbyggjunum á svæðinu sem nýtur verndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert