Gríðarlegur óþefur úr steinkistunni

Beinagrindur þriggja manna fundust í steinkistunni.
Beinagrindur þriggja manna fundust í steinkistunni. AFP

Þrjár beinagrindur fundust í steinkistunni sem grafin var upp í Alexandríu í Egyptalandi fyrir þremur vikum. Í kistunni var einnig skólp svo lyktin sem gaus upp er kistan var opnuð var næstum óbærileg.

Kist­an er 265 sentimetra löng og 165 senti­metra þykk og fannst við bygg­inga­fram­kvæmd­ir. Á svipuðum slóðum fannst einnig höfuð höggvið úr mjólk­ur­steini. Kist­an er tal­in sú stærsta sinn­ar teg­und­ar sem fund­ist hef­ur hingað til.

Kist­an er úr svörtu graníti og var á um fimm metra dýpi. Talið er að hún hafi ekki verið opnuð síðan hún var sett í jörðina, lík­lega um árið 35 fyr­ir Krist, eða fyrir um 2.000 árum.

Er fornleifafræðingar greindu frá fundi kistunnar fóru margir að gæla við þá hugmynd að í henni mætti finna bein Alexanders mikla. Þá vörpuðu aðrir fram þeirri kenningu að álög hvíldu á kistunni og myndu þau koma í ljós er hún yrði opnuð.

Hvorugt reyndist rétt, segir í frétt BBC.

Svo slæmur var óþefurinn úr kistunni að fornleifafræðingarnir sem höfðu lyft lokinu urðu frá að hverfa. Þeir kölluðu því til verkfræðinga hersins svo að opna mætti kistuna og sjá innihald hennar.

„Við fundum bein þriggja manna og þetta virðist vera fjölskylda,“ segir Mostafa Waziri, yfirmaður fornleifastofnunar Egyptalands.

Spurður um sögusagnir um álög á kistunni svarar Waziri: „Við opnuðum hana og, þökk sé guði, þá hefur heimurinn ekki myrkvast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert