Rekinn fyrir að ráðast á mótmælendur

Alexandre Benalla (t.v.) sá meðan annars um öryggismálin í kosningabaráttu …
Alexandre Benalla (t.v.) sá meðan annars um öryggismálin í kosningabaráttu Emmanuel Macron Frakklandsforseta (t.h.). AFP

Forsetaskrifstofa Emmanuel Macron Frakklandsforseta greindi frá því í dag að starfsmaður forsetans, sem réðst á þátttakendur í mótmælum 1. maí, verði rekinn. Starfsmaðurinn Alexandre Benalla sætir nú varðhaldi, en greint var frá því í gær að hann sætti rannsókn hjá saksóknara eftir að mynd­skeið náðist af hon­um ráðast gegn tveim­ur mót­mæl­end­um í Par­ís­ar­borg á verka­lýs­deg­in­um. 

Benalla er aðstoðarmaður starfs­manna­stjóra Macron og hefur fyrst og fremst séð um ör­ygg­is­ráðstaf­an­ir fyr­ir op­in­ber er­indi for­set­ans. Hann var einnig yfir ör­ygg­is­mál­um í kosn­inga­bar­áttu Macron á síðasta ári.

Í mynd­skeiðinu sést Benalla bera hjálm­grímu lög­reglu en er þó ekki í ein­kenn­is­bún­ingi. Þá sést hann grípa um háls konu og draga hana niður nær­liggj­andi götu þar til þau hverfa bæði úr mynd. Stuttu síðar kem­ur Benalla svo aft­ur á vett­vang þar sem hann ræðst á mann sem ligg­ur á jörðinni.

Maðurinn sem hér grípur annan hálstaki er sagður vera Alexandre …
Maðurinn sem hér grípur annan hálstaki er sagður vera Alexandre Benalla, starfsmaður Emmanuel Macron Frakklandsforseta. AFP

At­vikið átti sér stað á vin­sæl­um ferðamannastað í fimmta um­dæmi borg­ar­inn­ar og höfðu um það bil hundrað íbú­ar safn­ast sam­an í til­efni af verka­lýðsdeg­in­um. Fljót­lega kom til átaka á milli mót­mæl­enda og óeirðalög­reglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert