Stóðu sig betur í fjögurra daga vinnuviku

Starfsmennirnir nutu bæði vinnu og frítíma betur meðan á tilrauninni …
Starfsmennirnir nutu bæði vinnu og frítíma betur meðan á tilrauninni stóð. AFP

Framsækið tilraunaverkefni í nýsjálensku fyrirtæki, þar sem starfsmenn unnu fjóra daga vikunnar í stað fimm en fyrir sömu laun, gaf mjög góða raun. Um 78% starfsmannanna fannst þeir ná betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs samanborið við 54% nokkrum mánuðum áður. Forstjóri fyrirtækisins segir að þrátt fyrir að vinna degi skemur en áður hafi starfsfólkið áorkað meiru í vinnunni.

Í frétt breska blaðsins Guardian um málið kemur fram að tilraunin hafi staðið í mars og apríl. Á því tímabili unnu allir 240 starfsmenn sjóðsstjórnunarfyrirtækisins Perpetual Guardian í átta klukkustundir á dag í fjóra daga í stað fimm áður. Laun þeirra voru ekki lækkuð.

Vísindamenn við háskóla í Auckland fylgdust með gangi tilraunarinnar og komust að þeirri niðurstöðu að fjögurra daga vinnuvikan jók ánægju starfsmanna bæði í vinnu og í einkalífi. Þá hafi starfsmenn skilað meiri afköstum og notið starfsins betur en áður. 

Stofnandi Perpetual Guardian, Andrew Barnes, átti hugmyndina að tilrauninni. Hann vildi finna leiðir til að auka ánægju starfsfólksins og hjálpa því að einbeita sér betur að starfinu á vinnutímanum og betur að einkalífinu þess utan.

Gaf góða raun

Ákveðnir mælikvarðar eru notaðir við að mæla jafnvægi milli vinnu og heimilis og hafði tilraunin jákvæð áhrif á þá alla. Þannig dró úr streitu starfsmanna um 7% svo dæmi sé tekið.

Helen Delaney við viðskiptaháskólann í Auckland segir að skipt hafi máli að starfsmennirnir hafi verið hafðir með í ráðum er verkefnið var útfært. Það hafi gegnt lykilhlutverki í því að ekki dró úr framleiðni á tilraunatímabilinu. Þeir hafi skipulagt vinnu sína vel og gætt þess að sinna ekki einkaerindum á vinnutímanum.

Barnes segir að stjórn fyrirtækisins muni taka niðurstöðurnar til umfjöllunar og skoða hvort fjögurra daga vinnuvika verði tekin upp til langframa í fyrirtækinu. Er tilraunin var í gangi sagði Barnes við fjölmiðla: „Ef þú getur leyft foreldrum að eyða meiri tíma með börnunum sínum, hvernig getur það verið slæmt?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert