Þekktur morðingi grunaður í málinu

Lögreglan veit ekki hvort að fórnarlambið var drepið á þeim …
Lögreglan veit ekki hvort að fórnarlambið var drepið á þeim stað þar sem lík þess fannst eða hvort líkið var fært til. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Norsku lögreglunni hefur ekki enn tekist að bera kennsl á lík sem kveikt var í í Maridalnum í Ósló á miðvikudag. Hún hefur þó fengið ábendingar um af hverjum líkið kunni að vera en óskar enn eftir upplýsingum frá þeim sem voru á svæðinu um það leyti sem kveikt var í líkinu.

Lögreglunni barst ábending síðdegis á miðvikudag um að brennt lík væri að finna í Maridalnum. Slökkviliðið hafði þá einnig fengið tilkynningu um eld á svæðinu. Samkvæmt heimildum norska ríkisútvarpsins  var líkið enn að brenna er lögreglan kom á vettvang. John Edvin Lie, sem þekktur er undir nafninu Johnny Olsen, var handtekinn skammt frá þeim stað sem líkið fannst. Hann var dæmdur fyrir tvö morð í Hadeland árið 1982. Hann hefur nú verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna gruns um morð.

Lögreglan veit ekki hvort að fórnarlambið var drepið á þeim stað þar sem lík þess fannst eða hvort líkið var fært til. 

Krufning á líkinu hefur farið fram en frumniðurstöður leiða hvorki kyn, aldur né dánarorsök í ljós. Frekari rannsókna er því þörf en líkið er mjög illa farið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert