Guterres kallar eftir stillingu

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. AFP

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres beinir því til Ísraela og Palestínumanna að forðast „önnur hörmungarátök“, eftir að skærur á milli þeirra í gær kostuðu alls fimm manns lífið.

„Ég hef alvarlegar áhyggjur af ofbeldi á Gaza og í Suður-Ísrael,“ sagði Guterres í yfirlýsingu í dag. Hann hvatti báða aðila til að reyna sitt besta til halda friðinn.

Fjórir Palestínumenn og ísraelskur hermaður létu lífið á Gaza í gær, en rót átakanna sem blossuðu þá upp var sú að skotið var að ísraelskum hermönnum sem stóðu vörð við öryggisgirðinguna sem aðskilur Gaza-strönd og afganginn af Ísrael. Einn ísraelsku hermannanna lést af sárum sínum.

Eldur blossar upp eftir að ísraelsk sprengja féll til jarðar …
Eldur blossar upp eftir að ísraelsk sprengja féll til jarðar á Gaza í gær. AFP

Loftárásir Ísraela í gær beindust að skotmörkum á vegum Hamas-samtakanna og kostuðu þær þrjá Hamas-liða lífið, auk eins almenns borgara, samkvæmt því sem BBC hefur eftir yfirvöldum á Gaza.

Ofbeldisfull mótmæli hafa staðið yfir við öryggisgirðinguna með reglulegu millibilli undanfarnar 17 vikur, en oftast safnast Palestínumenn saman til mótmæla á föstudögum.

Hamas-samtökin hafa svo skotið miklum fjölda eldflauga yfir til Ísrael að undanförnu og á föstudaginn fyrir viku síðan svaraði Ísraelsher þeim með umfangsmestu loftárásum sem gerðar höfðu verið á Gaza frá því árið 2014.

Frá mótmælum Palestínumanna við öryggisgirðinguna á Gaza-strönd í gær.
Frá mótmælum Palestínumanna við öryggisgirðinguna á Gaza-strönd í gær. AFP

Guterres kallar eftir því að Hamas og aðrir herskáir Palestínumenn hætti að skjóta eldflaugum yfir til Ísrael og láti af öðrum ögrunum gagnvart Ísralsmönnum. Aðalritarinn hvetur Ísraelsmenn sömuleiðis til þess að sýna stillingu, til þess að koma í veg fyrir að ástandið fari úr böndunum.

Hann hvatti alla aðila til þess að vinna með Sameinuðu þjóðunum að friðsamlegu lausn á ófriðnum, sem hann segir að ógni lífum borgara beggja vegna öryggisgirðingarinnar og geri hörmulegar aðstæður borgara á Gaza-ströndinni enn verri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert