Árás við heimkomu varaforsetans

Borði með mynd af Abdul Rashid Dostum í Kabúl.
Borði með mynd af Abdul Rashid Dostum í Kabúl. AFP

Sjálfsmorðssprengjuárás var gerð við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl í Afganistan í morgun með þeim afleiðingum að í það minnsta tíu létust eða særðust. Hópur var saman kominn á flugvellinum til að fagna heimkomu varaforsetans Abdul Rashid Dostum sem verið hefur í útlegð.

Meðal viðstaddra voru embættismenn og stjórnmálaleiðtogar sem og stuðningsmenn varaforsetans. Fólkið var á leið frá flugvellinum er sprengingin varð.

Dostum, sem var í brynvörðum bíl, sakaði ekki, að sögn talsmanns hans. 

„Við getum staðfest að tíu manns létust eða særðust í sprengingunni sem sjálfsmorðssprengjumaður gerði,“ segir talsmaður afganska innanríkisráðuneytisins. Meðal þeirra sem létust vor barn og hermaður.

 Dostum er umdeildur stríðsherra og talinn bera ábyrgð á fjölda mörgum mannréttindabrotum í landinu. Honum var fagnað eins og hetju er hann steig út úr flugvélinni í Kabúl eftir komu sína frá Tyrklandi þar sem hann hefur dvalið frá því í maí á síðasta ári.

Spurst hafði út að hann væri væntanlegur til heimalandsins og braust þá út ýmist fögnuður eða mótmæli á helstu áhrifasvæðum hans í norðanverðu landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert