Björguðu óléttri konu úr sjávarháska

Maður um borð í skipi spænsku mannúðarsamtakanna Open Arms horfir …
Maður um borð í skipi spænsku mannúðarsamtakanna Open Arms horfir út á sjó í nágrenni Möltu. AFP

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, ætlar að taka við nítján flóttamönnum sem var bjargað eftir að bát þeirra hvolfdi á Miðjarðarhafinu í nótt. Herinn á Möltu bjargaði fyrst í stað sautján úr hafinu en eftir ábendingu frá þeim hópi var leit gerð að nýju og í henni fannst ólétt kona og barn hennar í sjónum.

„Við höfum fundið þau og þau eru öll á lífi,“ sagði Muscat við blaðamenn. Hann segist hafa fengið þau fyrirmæli flytja fólkið til Möltu.

Hins vegar neita stjórnvöld á Möltu enn að taka við fjörutíu flóttamönnum sem bjargað var af flutningaskipi í landhelgi landsins fyrir viku. Þau segjast ekki hafa brotið alþjóðalög með því að beina fólkinu til Túnis. Segja þau að Túnis hafi verið nær þeim stað þar sem fólkinu var bjargað en Malta. 

Stjórnvöld í Túnis hafa hins vegar einnig neitað að taka við hópnum sem heldur því enn til um borð í skipinu sem kom honum til bjargar. Skipið liggur nú við bryggju í Zarzis í Túnis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert