Drap mann en sleppur við ákæru

Frá bensínstöð í Flórída.
Frá bensínstöð í Flórída. AFP

Karlmaður sem skaut annan mann til bana á bílastæði í borginni Clearwater í Flórída í Bandaríkjunum verður hvorki handtekinn né ákærður, að sögn lögreglunnar á svæðinu.

„Ég set ekki lögin, ég framfylgi þeim,“ sagði Bob Gualtieri, lögreglustjóri í Pinellas-sýslu á blaðamannafundi í dag. „Lögin í Flórída eru þau að fólk hefur rétt á að verja sig þegar það telur sig vera í hættu.“

Flórída er eitt 27 ríkja Bandaríkjanna sem hafa lög sem nefnd eru á ensku Stand Your Ground Law og mætti nefna „Standa á sínu-lög“ og er ætlað að tryggja rétt íbúa til sjálfsvarnar. 

Samkvæmt lögunum er fólki heimilt að beita ýtrustu ráðstöfunum til að verja öryggi sitt á stöðum þar sem það hefur rétt á að vera. Undir það fellur manndráp.

Málið hefur vakið upp kunnuglegar ásakanir í landinu um að kynþáttur byssumanna hafi áhrif á vinnubrögð lögreglu, en fórnarlambið var þeldökkur karlmaður á þrítugsaldri en byssumaðurinn var hvítur.

Manndrápið áti sér stað um klukkan hálffjögur í eftirmiðdaginn á fimmtudag að staðartíma. Markeis McGlockton, 28 ára, hafði lagt í stæði fyrir fatlaða þegar hann fór með fimm ára syni sínum í matarbúðina en kærasta hans og barnsmóðir beið í bílnum. Þegar feðgarnir komu út úr búðinni beið maður að nafni Michael Drejka hans við bílinn og upphófust deilur milli þeirra vegna notkunar McGlockton á stæðinu.

Deilurnar mögnuðust og fór svo að McGlockton hrinti manninum, eins og sést á upptöku úr öryggismyndavél sem fréttaveitan ABC birti. Ekki er að sjá á myndbandinu að McGlockton ætli sér að veitast að liggjandi manninum, en sá mun þó hafa talið lífi sínu ógnað, þrífur upp byssu og skýtur McGlockton af stuttu færi. Hann fellur niður dauður fyrir framan fimm ára son sinn og kærustu.

Maðurinn, Michael Drejka, var færður til yfirheyrslu en að sögn lögreglu var hann samvinnuþýður við lögreglu auk þess sem hann er með öll tilskilin leyfi fyrir því að bera falið skotvopn í Flórída.

Lögregla mun því ekki aðhafast frekar en málið verður sent til ríkislögmanns til yfirferðar. Sé hann ósammála mati lögreglunnar getur hann ákært manninn, en lögreglustjórinn segir að sönnunarbyrðin sé þung eigi að sýna að byssumaðurinn hafi ekki verið að verja sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert