Samkynja pörum mismunað

Fjöldi fólks kom saman í Tel Aviv í Ísrael til …
Fjöldi fólks kom saman í Tel Aviv í Ísrael til að mótmæla nýrri lagasetningu um staðgöngumæðrun. AFP

Fjöldamótmæli voru víða í Ísrael í dag, gegn nýjum lögum Ísraelsstjórnar um staðgöngumæðrun. Lögin voru samþykkt á miðvikudag og gera þau einhleypum konum og þeim sem ekki geta eignast börn kleift að leita til staðgöngumæðra, en sömu réttindi voru ekki veitt samkynja pörum né einhleypum körlum.

Áður máttu einungis gift gagnkynhneigð pör nýta sér þjónustu staðgöngumæðra í Ísrael. Því er um að ræða aukin réttindi til handa borgurum landsins, en ekki öllum. Mismununinni er mótmælt.

Ísraelska blaðið Haaretz telur að 60.000 manns hafi mætt til mótmæla á Rabin-torginu í miðborg Tel Aviv í dag. Fjöldi lögreglumanna stóð vaktina, en mótmælin fóru friðsamlega fram.

Talið er að 60.000 manns hafi safnast saman til friðsamlegra …
Talið er að 60.000 manns hafi safnast saman til friðsamlegra mótmæla á Rabin-torgi í Tel Aviv. AFP

Julien Bahloul, talsmaður samtaka samkynhneigðra feðra í Ísrael segir að samkynhneigð pör sem vilji eignast börn þurfi að leita til staðgöngumæðra erlendis og að kostnaðurinn við það geti numið meira en 100.000 bandaríkjadölum. Það er tvöfalt meira en það myndi kosta ef þeim væri gert kleift að nýta sér þjónustu staðgöngumóður í Ísrael, sagði Bahloul við AFP fréttaveituna.

Snýst um meira en staðgöngumæðrun fyrir suma

Einhverjir voru þó mættir til að mótmæla stöðu samkynhneigðra og LGBT-samfélagsins í heild sinni, en ekki bara nýju lagasetningunni.

„Við viljum að LGBT-samfélagið njóti jafnréttis,“ sagði Chen Arieli við AFP. Hún sagði mótmælin ekki snúast um staðgöngumæðrun, heldur öryggi LGBT-fólks á götum úti í Ísrael.

16 ára stúlka var stungin til bana af réttrúnaðargyðingi í Pride-göngunni í Jerúsalem árið 2016. Árásarmaðurinn stakk fimm til viðbótar í gleðigöngunni og afplánar nú lífstíðardóm á bak við lás og slá.

AFP

Ísraelsstjórn hefur þó almennt þótt standa framarlega er kemur að réttindum hinsegin fólks, en samkynja sambönd eru þó litin hornauga af ýmsum trúuðum íhaldsmönnum, sem margir hverjir styðja ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra.

Ríkisstjórn hans reiðir sig aukinheldur á stuðning tveggja stjórnmálaflokka sanntrúaðra gyðinga, sem báðir eru á móti því að samkynja pör eignist börn.

Ætlar að láta Netanjahú svara í þinginu

Stjórnarandstöðuþingmaður að nafni Ofer Shelal, úr miðjuflokknum Yesh Atid, segir að hann hafi safnað nægilega mörgum undirskriftum til að láta forsætisráðherrann svara fyrir þá mismunun gagnvart samkynhneigðum sem felist í hinni nýju lagasetningu.

„Við skulum ekki leyfa Netanjahú að komast upp með að svara ekki fyrir þá mismunun gegn LGBT-samfélaginu sem birtist í þessum lögum,“ sagði Shelal í yfirlýsingu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert