Skíðaði niður K2 fyrstur manna

Bargiel varð í dag fyrsti maðurinn til þess að skíða …
Bargiel varð í dag fyrsti maðurinn til þess að skíða niður fjallið K2 í Pakistan, sem er annað hæsta fjall í heimi. Ljósmynd/Facebook-síða Bargiel

Pólski ofurhuginn Andrzej Bargiel varð í dag fyrsti maðurinn til þess að skíða niður annað hæsta fjall heims, K2 í Pakistan. Frá þessu er greint á Facebook-síðu ofurhugans. Bargiel komst á toppinn ásamt þrjátíu öðrum fjallagörpum í gær, en hæsti punktur K2 er í 8.611 metra hæð yfir sjávarmáli.

Hann smellti síðan á sig skíðunum og brunaði niður snarbratt fjallið og er þetta sem áður segir í fyrsta sinn sem einhver kemst á skíðum alla leiðina niður. Bargiel er 30 ára gamall og var að reyna að skíða niður fjallið í annað sinn, en í fyrra varð hann frá að hverfa vegna slæms veðurs.

Hann hefur áður skíðað niður há fjöll, en fyrir þremur árum síðan varð hann sá fyrsti til þess að skíða niður Broad Peak, 8.015 metra hátt fjall sem er nærri K2. Alls hefur hann skíðað niður fimm af 14 hæstu fjöllum heims, en í þessari för til Himalya-fjalla var hann áður búinn að skíða niður fjöllina Shishapangma og Manaslu.

K2 þykir einn hrikalegasti tindur heims og jafnvel segja margir fjallagarpar að hann reyni meira á en sjálft Everest-fjall. Minna en 350 manns hafa komist alla leið á topp K2 síðan það tókst í fyrsta skipti árið 1954, en áttatíu fjallagarpar hafa látið lífið við að reyna að komast upp fjallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert