Versta leikkona í heimi?

Pia Zadora á hátindi frægðar sinnar upp úr 1980.
Pia Zadora á hátindi frægðar sinnar upp úr 1980.

Í upphafi níunda áratugarins beit ísraelski milljarðamæringurinn Meshulam Riklis það í sig að hann vildi gera eiginkonu sína að kvikmyndastjörnu. Hún hét Pia Zadora og var frá Bandaríkjunum; þrjátíu árum yngri en bóndi hennar.

Zadora hafði dýft litlu tánni út í Hollywood-laugina þegar hún, ellefu ára gömul, lék Marsstúlkuna Girmar í þeirri ódauðlegu mynd (eða þannig!) Santa Claus Conquers the Martians, árið 1964. Að annarri kvikmyndaleikreynslu bjó hún ekki.

Riklis lét það ekki trufla sig; fjármagnaði sjálfur gerð myndarinnar Butterfly sem byggðist á samnefndri skáldsögu James M. Cain frá 1947. Aðalhlutverkið kom í hlut Piu Zadora en af öðrum leikendum má nefna ekki minni menn en Stacy Keach og Orson Welles. Leikstjóri var Matt Cimber og tónlistin eftir engan annan en Ennio Morricone.

Lítið hefur farið fyrir Piu Zadora í seinni tíð.
Lítið hefur farið fyrir Piu Zadora í seinni tíð.

Riklis fylgdi myndinni eftir með útpældri auglýsingaherferð; Zadora gnæfði um tíma yfir vegfarendum á Sunset Boulevard og víðar, veislur voru þræddar og sprundið kom ítrekað fram í haldlitlum klæðum. Allt kom fyrir ekki; Butterfly fékk hraksmánarlega dóma hjá gagnrýnendum og myndin var valin sú versta á árinu á Golden Raspberry-hátíðinni árið 1982. Og það sem verra var; Pia Zadora var ekki aðeins valin versta leikkonan á sömu hátíð, heldur einnig versta nýstirnið.

Það kom því mörgum í opna skjöldu þegar Zadora var valin besti kvenkyns nýliðinn á Golden Globe-hátíðinni sama ár. Sumir voru á því að brögð væru í tafli; Riklis hefði mútað dómnefndinni. Það var aldrei sannað.

Ári síðar lék Zadora í myndinni The Lonely Lady eftir Peter Sasdy og allt fór á sama veg; hún var aftur valin versta leikkonan á Golden Raspberry-hátíðinni. Þar með hefði hún líklega átt að sjá sæng sína uppreidda en Zadora kom þó fram í fimm myndum til viðbótar.

Golden Raspberry sleppti Zadora ekki svo auðveldlega en þegar níundi áratugurinn var gerður upp var hún valin versta nýstirni hans og tilnefnd í flokknum versta leikkonan.

Zadora og Stacy Keach í hinni alræmdu mynd Butterfly.
Zadora og Stacy Keach í hinni alræmdu mynd Butterfly.

Enda þótt hún verði seint kölluð dálæti tónlistargagnrýnenda naut Zadora um tíma hóflegra vinsælda sem söngkona; ekki síst fyrir dúett sinn með Jermaine Michael-bróður Jackson árið 1984, When the Rain Begins to Fall. Ári síðar var hún tilnefnd til Grammy-verðlauna sem besta rokksöngkonan fyrir lag sitt Rock it Out en tapaði fyrir Tinu Turner. Zadora hugði á „kommbakk“ með kabarettsýningu 2011 en sú ágæta sýning fór aldrei á flug.

Zadora og Riklis komust í heimsfréttirnar árið 1988 þegar þau festu kaup á Hollywoodsetri leikarahjónanna Mary Pickford og Douglas Fairbanks og jöfnuðu það við jörðu til þess að geta byggt annað og stærra setur. Þegar setrið var risið lét Riklis mála spúsu sína nakta og kom verkinu vandlega fyrir í holinu. Upphaflega skýringin á framkvæmdunum var sú að gamla setrið hefði verið orðið svo lúið að ekki hefði borgað sig að gera það upp. Löngu seinna upplýsti Zadora að hún hefði viljað láta rífa setrið vegna draugagangs. Zadora og Riklis skildu árið 1993. Þau eiga tvö börn. Þess má geta að Riklis er enn á lífi, orðinn 94 ára. Tveimur árum síðar giftist hún leikstjóranum Jonathan Kaufer og eignaðist með honum eitt barn. Þau skildu líka. Frá 2005 hefur Zadora verið gift Michael Jeffries, lögreglumanni í Las Vegas.

Síðustu fréttir af Zadora, sem orðin er 65 ára, voru ekki góðar en sérsveit lögreglunnar tók hana höndum á heimili hennar árið 2013 eftir að sextán ára gamall sonur hennar hringdi í Neyðarlínuna. Sonurinn mun, að sögn, hafa neitað að fara í rúmið með þeim afleiðingum að Zadora veittist að honum. Hvergi fást upplýsingar um framvindu málsins en Zadora virðist alltént ekki hafa hlotið dóm.

Þessi gein tilheyrir greinaflokknum Hvað varð um? í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert