Bretar hvattir til að forðast sólina

Hitabylgjan færist í aukana í Bretlandi.
Hitabylgjan færist í aukana í Bretlandi. AFP

Veðurstofan í Bretlandi hvetur fólk til að forðast sólina þar til á föstudag en spáð er yfir 34°C á sumum stöðum í landinu næstu daga. 

Veðurstofan gaf í morgun út formlega viðvörun vegna hitabylgjunnar. Er fólk hvatt til að halda heimilum sínum svölum, drekka nóg af vökva og hafa auga með öldruðum, segir í frétt Telegraph um málið.

Á miðvikudag er spáð heitasta degi ársins hingað til en þá mun hitinn að öllum líkindum fara yfir núverandi met sem var slegið í Norður-Wales þann 28. júní er hitinn mældist 33°C.

Á næstu dögum mun hitinn víða fara yfir 30 gráður að degi til og 15 gráður að nóttu. Mun þetta ástand vara í að minnsta kosti tvo daga. Heitast verður á suður- og austurhluta Englands. 

Veðurstofan varar fólk við því að vera úti í sólinni um hábjartan daginn eða milli klukkan 11 og 15.

Í frétt Telegraph segir að hitastigið í hitabylgjunni sem nú er í Bretlandi sé um 10°C hærri en í meðalári á þessum árstíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert