Ekki reynt að koma í veg fyrir dauðadóma

Úr myndbandinu þar sem James Foley er afhöfðaður.
Úr myndbandinu þar sem James Foley er afhöfðaður. Skjáskot úr myndbandinu

Bretar munu ekki reyna að stöðva bandarísk yfirvöld ef þau dæma tvo Breta til dauða en þeir eru ákærðir fyrir aðild að vígasamtökunum Ríki íslams. Um er að ræða Alexanda Kotey og El Shafee Elsheikh sem voru handteknir í Sýrlandi í janúar. Þeir voru liðsmenn hryðjuverkahóps sem gekk undir heitinu „Bítlarnir“ vegna þess að félagarnir voru fjórir og komu allir frá Bretlandi og voru þar af leiðandi með sterkan breskan framburð. 

Hópurinn þótti afar hrottafenginn en hann stóð meðal annars á bak við afhöfðun bandarísku blaðamannanna James Foley og Steven Sotloff, bresku hjálparliðanna David Haines og Alan Henning og bandaríska hjálparliðanum Peter Kassig.

Telegraph hefur birt bréf sem innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, sendi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna þar sem hann segir að Bretar muni ekki óska eftir neinni tryggingu um að lífi tvímenninganna verði þyrmt. Javid staðfestir við BBC að hann hafi upplýst forsætisráðherra, Theresu May, um málið en vill ekki segja neitt um hvort hún sé sammála þessu. 

Fyrr á árinu sögðust tvímenningarnir vita að þeir fengju ekki sanngjarna meðferð fyrir dómstólum þar sem ríkisstjórn Bretlands hefði svipt þá breskum ríkisborgararétti.

Diane Foley, móðir bandaríska blaðamannsins James Foley, er ekki sátt við að þeir verði dæmdir til dauða. Það gerði þá að píslarvottum í þeirri kolrugluðu hugmyndafræði sem gilti meðal stuðningsmanna vígasamtakanna. Amnesty International gagnrýnir einnig ákvörðun breskra yfirvalda.  

Auk Kotey og Elsheikh voru þeir Mohammed Emwazi, sem var nefndur „Jihadi John“ og Aine Davis í Bítlahópnum. Þeir eru allir frá London og öfgavæddust í Bretlandi áður en þeir fóru til Sýrlands til þess að taka þátt í starfi vígasamtakanna Ríkis íslams.

Emwazi, sem er talinn hafa verið höfuðpaur þeirra, var drepinn í drónaárás árið 2015. Davis var dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir aðild að Ríki íslams í Tyrklandi í fyrra og er í fangelsi þar í landi.

Frétt Telegraph

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert