Arftakinn umdeildur stjórnmálamaður

Sylvi Listhaug, þingmaður Framfaraflokksins, sem sagði af sér fyrr á …
Sylvi Listhaug, þingmaður Framfaraflokksins, sem sagði af sér fyrr á árinu er orðuð við varaformannsembættið sem er autt eftir að Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, sagði af sér í dag. Ljósmynd/Alexander Helberg

„Per bað sjálfur um lausn og tel ég það rétta ákvörðun,“ hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, vegna afsagnar Pers Sandbergs sjávarútvegsráðherra í dag. Hún vildi ekki tjá sig um málið nánar nema að segja að Sandberg hafi ekki sýnt nægilega varkárni í sambandi við öryggismál.

Þegar Sandberg afhenti arftaka sínum lykla í norska sjávarútvegsráðuneytinu sagði hann við fjölmiðla að hann sjái aðeins eftir tveimur hlutum. Annars vegar því að hafa ekki tilkynnt forsætisráðuneytinu um ferð sína til Írans og að hafa tekið með sér vinnusímann.

Sandberg er ekki þingmaður og mun að því ekki starfa sem stjórnmálamaður á næstunni. Spurður um næstu skref vegna þessa svaraði hann: „Rosa fyndinn. Þið viljið kannski vita eitthvað um kynlífið mitt líka,“ og klappaði blaðamanni á kinnina. Þá sagðist hann ætla að svara fyrirspurnum fjölmiðla á morgun.

Sylvi Listhaug líklega nýr varaformaður

Samkvæmt heimildum NRK mun Sylvi Listhaug líklega verða nýr varaformaður Framfaraflokksins, en Sandberg hefur gegnt því til þessa. Miðstjórn flokksins mun taka ákvörðun um hver verður varaformaður flokksins 3. september og mun sá gegna því embætti fram að landsfundi flokksins.

Listhaug sagði af sér sem dóms- og innflytjendamálaráðherra 20. mars í kjölfar þess að hafa sagt í Facebook-færslu að Verkamannaflokkurinn kæri sig meira um réttindi hryðjuverkamanna en þjóðaröryggi.

Í viðtali við Aftenposten segir Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, að Listhaug komi vel til greina í embætti varaformanns. „Já, augljóslega. Ég er mjög ánægð með það að Framfaraflokkurinn hefur meðal margra kraftmikilla einstaklinga að velja til þess að fylla í skarðið fyrir Per. Það leikur enginn vafi um að Sylvi er mjög vinsæll stjórnmálamaður flokksins.“

Listhaug þykir með heldur umdeildari stjórnmálamönnum Noregs og þurfti hún að sæta gagnrýni í leiðurum fimm dagblaða 18. júní vegna ummæla um ráðstöfun öldrunarheimilis. Þá kenndi hún meirihlutanum í Ósló um að henda öldruðum á götuna og að nýta rými í þágu ólöglegra innflytjenda. Staðreyndin var sú að umrætt húsnæði er í eigu miðborgarstarfs kirkjunnar.

Nornaveiðar

Unnusta Sandbergs, Bahareh Letnes, hefur sagt í smáskilaboðum við NRK  að Sandberg láti nú af störfum vegna nornaveiða og að hann sé einn af bestu stjórnmálamönnum Noregs.

„Ég hef verið lögð í rúst í lýðræðislandi. Í landi sem sagt er með þeim friðsælustu að búa í og berst fyrir mannréttindum,“ skrivar Letnes. Hún hefur verið sögð útsendari íranskra stjórnvalda í sumum dagblöðum og hefur öryggisdeild norsku lögreglunnar, PST, tekið hana til skoðunar hjá embættinu.

Per Sandberg hefur látið af störfum sem sjávarútvegsráðherra Noregs.
Per Sandberg hefur látið af störfum sem sjávarútvegsráðherra Noregs. Ljósmynd/Alexander Helberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert