Myndaði nektarfyrirsætu án leyfis

Suður-kóreskar konur gengu fylktu liði fyrr í sumar þar sem …
Suður-kóreskar konur gengu fylktu liði fyrr í sumar þar sem þær mótmæltu því að vera myndaðar í laumi. AFP

Suður-kóresk kona hefur verið dæmd til fangelsisvistar eftir að hún myndaði karlkyns nektarfyrirsætu í laumi og kom myndinni á veraldarvefinn.

Konan, sem er 25 ára gömul, er einnig nektarfyrirsæta. Hún var dæmd í tíu mánaða fangelsi en myndina tók hún í listaháskóla í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu.

Sjaldgæft er að dómar falli í málum svipuðum og þessum og hefur hann vakið mikla athygli í Suður-Kóreu. Talað er um tvískinnung en konur eru í langflestum tilfellum fórnarlömb kynferðisofbeldis sem felst í því að þær eru myndaðir án þess að vita af því.

Konur eru þá myndaðar þar sem þær fara á salernið, afklæðast í mátunarklefum fataverslana, í líkamsræktarstöðvum eða sundlaugum. Myndskeiðunum er síðan dreift á klámsíðum.

Meira en sex þúsund slík mál eru skráð árlega en einungis 8,7% geranda eru fangelsaðir fyrir fyrsta brot.

„Viðbrögð lögreglunnar í þessu sjaldgæfa máli þar sem karlmaður er fórnarlamb á sér engin fordæmi,“ kom fram í yfirlýsingu aðgerðasinna í Suður-Kóreu. Þar kom enn fremur fram að lögreglan hefði aldrei brugðist jafnhratt við þegar fórnarlömbin væru kvenkyns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert