Rekinn vegna skilaboða um Trump

Peter Strzok.
Peter Strzok. AFP

Peter Strzok, fyrrverandi aðstoðaryfirmanni gagnnjósnara FBI, hefur verið sagt upp störfum. Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur vikið Strzok úr starfi vegna skilaboða hans og annars starfsmanns um Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Strzok var einn af þeim sem rannsökuðu tengsl Rússa við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016 en var vikið frá þeim störfum eftir að skilaboðin komu í ljós.

Strzok og Lisa Page, fyrrverandi lögmaður FBI og kærasta hans á þeim tíma, sendu skilaboð sín á milli í aðdraganda forsetakosninganna þar sem þau gagnrýndu Trump.

Lisa Page.
Lisa Page. AFP

Eftir það hafa Trump og stuðningsmenn hans sagt að rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknara dómsmálaráðuneytisins vegna afskipta Rússa af kosningunum, sé ekkert annað en nornaveiðar.

Aitan Goelman, lögmaður Strzok, sagði að skjólstæðingur hans hefði verið rekinn fyrir helgi en fram að því hafði Strzok unnið hjá FBI í 21 ár. Hann sagði að ákvörðunin ætti að valda öllum Bandaríkjamönnum áhyggjum.

„Eftir mikla rannsókn var ekkert sem benti til þess að persónulegar skoðanir Strzok hefðu áhrif á vinnu hans. Hann hefur sannað sig sem einn færasti gagnnjósnari landsins,“ sagði Goelman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert