Halda að fólk sé á lífi í rústunum

Myrkur kemur ekki í veg fyrir björgunarstörf við Morandi-brúna. Um …
Myrkur kemur ekki í veg fyrir björgunarstörf við Morandi-brúna. Um 200 metra hluti brúargólfsins hrundi í morgun. AFP

Björgunarstarf við hluta Morandi-brúarinnar sem hrundi skammt fyrir utan borgina Genúa á norðvesturhluta Ítalíu í dag stendur enn yfir og stefna björgunarmenn á að halda áfram leit að eftirlifendum inn í nóttina.

Lögreglan á Ítalíu hefur staðfest að 26 eru látnir og 15 alvarlega slasaðir eftir að 35 bílar féllu um 45 metra fram af brúnni þegar um 200 metra hluti  brúargólfsins hrundi í morgun. Óttast er að mun fleiri hafi látið lífið og sagði innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, fyrr í kvöld að tala látinna væri nær 35 manns.

Sjónarvottar segjast heyra í fólki sem er fast undir rústunum. Að minnsta kosti 12 manns er saknað. 100 slökkviliðsmenn hafa bæst í hóp þeirra 200 sem hafa sinnt björgunarstarfi á svæðinu í dag. Hundum og klifurbúnaði er beitt við björgunarstörfin.

„Við höldum björgunaraðgerðum áfram þar sem við höldum að fólk sé á lífi í rústunum,“ segir talsmaður lögreglunnar í Genúa.

Orsök hrunsins er ekki kunn en spurningar hafa vaknað í tengslum við öryggisþætti í byggingu brúarinnar, sem var reist á sjöunda áratug síðustu aldar. Salvini heitir því að þeir sem beri ábyrgð á hruninu verði látnir svara til saka og segir hann brúarhrun í líkingu við það sem varð í dag sé í raun óhugsandi árið 2018.

Frétt BBC

Morandi-brúin er skammt frá Genúa á Ítalíu.
Morandi-brúin er skammt frá Genúa á Ítalíu. Kort/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert