80 bílar eyðilagðir í íkveikjuhrinu í Svíþjóð

Hópur ungmenna hefur kveikt í tugum bíla í Gautaborg í …
Hópur ungmenna hefur kveikt í tugum bíla í Gautaborg í kvöld. Ljósmynd/Twitter

Um 80 bílar skemmdust eða eyðilögðust eftir að svartklædd ungmenni kveiktu í bílum á nokkrum stöðum í Gautaborg og Trollhättan í gærkvöldi, en á síðarnefnda staðnum köstuðu ungmennin einnig grjóti í lögreglu og lokuðu vegum.

Þá voru einnig unnin annars konar skemmdarverk á bifreiðum í borgunum tveimur, m.a. var grjóti kastað í þá, rúður brotnar og slegið í bílana með bareflum.

Lög­regl­unni bár­ust fyrstu til­kynn­ing­ar um íkveikju laust eft­ir klukk­an 21 að staðar­tíma í ná­grenni við Fröl­unda-torg. Skömmu síðar bár­ust einnig til­kynn­ing­ar um íkveikju í bíl­um í Hjäll­bo og Troll­hätt­an. Þá hef­ur einnig verið kveikt í dekkj­um.

„Það hafa komið tímabil þar sem margir brunar hafa orðið á sama kvöldi, en ég minnist þess ekki að kveikt hafi verið í á svo mörgum stöðum á sama tíma áður,“ hefur sænska ríkisútvarpið SVT eftir Ulla Brehm, talsmanni lögreglunnar í umdæminu.

Sjónarvottar segjast hafa séð grímuklædd ungmenni hlaupa frá brunasvæðunum. „Ég sá 3-4 svartklædda drengi. Einn þeirra kastaði bensínsprengju í bíl, síðan heyrðist hár hvellur hefur Gautaborgarblaðið GT eftir sjónarvotti.

Fjöldi mynda og myndskeiða voru þá birt á samfélagsmiðlum sem sýndu logandi bifreiðar á bílastæðum. Þá sjást fleiri svartklæddar verur einnig kveikja í bílum.

Brehm segir í samtali við Expressen að lögreglu gruni að gerendurnir hafi haft samráð sín á milli, til að mynda í gegnum samfélagsmiðla. „Við vitum af fyrri reynslu að svona eldar eru oftar kveiktir í vikunni áður en skóli hefst en á öðrum tíma. Þegar svo mikið gerist rétt eftir klukkan níu að kvöldi getum við hins vegar ekki útilokað að þarna hafi eitthvað verið sett í gang á samfélagsmiðlum,“ sagði Brehm.

Stuttu eftir miðnætti greindi sænska lögreglan frá því að búið væri að slökkva alla eldana, en hún vinnur nú að því að bera kennsl á skemmdarvargana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert