Ók á hjólreiðamenn við þinghúsið

Lögregla lokaði svæðinu í kringum þinghúsið af og fer hryðjuverkadeild …
Lögregla lokaði svæðinu í kringum þinghúsið af og fer hryðjuverkadeild lögreglunnar fyrir rannsókninni. AFP

Tveir særðust er bíl var ekið á öryggishindranir við breska þinghúsið í London í morgun. Breska dagblaðið Guardian greinir frá því að báðir hinna slösuðu hafi verið hjólreiðamenn sem orðið hafi fyrir bílnum áður en hann lenti á hindrununum.

Mikið lögreglulið er á vettvangi og var götum og lestarstöð í næsta nágrenni lokað. Meiðsl hjólreiðamannanna eru ekki sögð vera lífshættuleg.

Lögreglumenn umkringdu bílinn fljótlega eftir atvikið og handtóku ökumanninn.

Bresk yfirvöld hafa ekki gefið upp hvort um hryðjuverk hafi verið að ræða, en hryðjuverkadeild Scotland Yard leiðir rannsóknina og segir málið vera rannsakað með „opnum huga“.

Nokkur fjöldi sjónarvotta á vettvangi segir hins vegar að svo virðist sem silfurlitum bílnum hafi viljandi verið ekið á fólkið. „Ég held að þetta hafi verið vilj­andi,“ seg­ir Ewal­ina Ochab. „Bíll­inn ók hratt í átt að hindr­un­un­um.“

Sjálf var hún á gang­stétt­inni hinum meg­in veg­ar­ins. „Ég heyrði hávaða og ein­hver öskraði. Ég sneri mér við og sá þá silf­ur­lit­an bíl aka mjög hratt, jafn­vel á gang­stétt­inni, á rimla­grind­verkið.“

Vopnuð lög­regla, sjúkra­bíl­ar og slökkvilið var fljótt á vett­vang og myndir hafa verið birt­ar á sam­fé­lags­miðlum sem sýna mann í hand­járn­um leidd­an á brott af lög­reglu. Borgarstjóri London, Sadiq Khan, segist vera í stöðugðu sambandi við lögreglu vegna málsins.

Búkk­ar úr stein­steypu og stáli um­kringja breska þing­húsið. Var þeim komið þar fyr­ir eft­ir að Khalid Masood ók bíl inn í mann­fjölda við West­minster-brúna í mars 2017 með þeim af­leiðing­um að fjór­ir lét­ust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert