Ungabörn berskjaldaðri fyrir mengun

Ungabörn og börn í kerrum eru berskjaldaðri fyrir mengun þar …
Ungabörn og börn í kerrum eru berskjaldaðri fyrir mengun þar sem þau eru nær jörðinni og í meiri nálægð við útblástursrör en þeir sem eldri eru og standa uppréttir. AFP

Ungabörn og börn sem ferðast um í kerrum og vögnum geta orðið fyrir allt að 60 prósent meiri mengun en fullorðnir, samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á vegum alþjóðlegrar miðstöðvar um loftgæði.

Ungabörn og börn í kerrum eru berskjaldaðri fyrir mengun þar sem þau eru nær jörðinni og í meiri nálægð við útblástursrör en þeir sem eldri eru og standa uppréttir. Þá stafar ungabörnum og börnum meiri hætta af mengun þar sem líkamar þeirra eru smærri og að byggjast upp.

Samkvæmt mælingum rannsakenda anda börn og ungabörn að sér í um 0,55-0,85 metra hæð og mælist mengun mest frá jörðu og að einum metra frá jörðu.    

„Þegar tekið er með í reikninginn hversu viðkvæm börn eru með tilliti til ónæmiskerfis og heilaþroska svona snemma á lífsleiðinni veldur það miklum áhyggjum að börn komist í tæri við svona mikið magn af mengun,“ segir prófessor Prashant Kumar, einn af höfundum skýrslu rannsóknarinnar.

Helsta leiðin til að koma í veg fyrir aukin mengunaráhrif er að forðast stórar umferðargötur og að nota hlífar líkt og regnplast yfir vagna. Ekki var litið til mismunandi gerða vagna og kerra við gerð rannsóknarinnar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert