Tveggja ára týndur í skógi í 3 daga

Drengurinn, Yoshiki Fujimoto, hvarf á sunnudagsmorgun er hann var á …
Drengurinn, Yoshiki Fujimoto, hvarf á sunnudagsmorgun er hann var á göngu með afa sínum og bróður. Skjáskot/Twitter

Tveggja ára drengur sem týndist í skógi í vesturhluta Japans fannst í dag heill á húfi eftir að hafa verið þar einn á þvælingi í þrjá daga. Segir AFP-fréttastofan að svo virðist sem drengurinn hafi lifað á árvatni þar til björgunarsveitir fundu hann eftir mikla leit.

Drengurinn, Yoshiki Fujimoto, hvarf á sunnudagsmorgun í  Yamaguchi-héraðinu er hann var á göngu með afa sínum og bróður. Afi hans hafði leyft honum að snúa við og ganga einn 100 metra leið heim til móður sinnar, en hann skilaði sér aldrei heim.

Mikið var fjallað um leitina að honum í japönskum fjölmiðlum, en leitarhundar, drónar með hitamyndavélar og þyrlur voru meðal þess sem var notað við leitina.

Lögregla og íbúar í nágrenninu leituðu drengsins í þrjá daga þar til hinn 78 ára gamli Haruo Obata rakst á hann í morgun. „Ég hrópaði „Yo-chan,“ sagði Obata í samtali við sjónvarpsstöð. „Hann svaraði: „Já hérna,“ og þar var hann,“ bætti Obata við og kvaðst reglulega taka þátt í björgunarstarfi vegna náttúruhörmunga.

Drenginn segir hann hafa setið á steini með bera fætur í polli fyrir framan sig.

„Fyrst hélt ég ekki að þetta gæti verið manneskja,“ rifjar hann upp. „En þarna var hann og ég hélt að ég myndi missa úr slag.“

Það þykir kraftaverki líkast að barnið hafi lifað af dvölina í skóginum, ekki hvað síst í ljósi hitabylgjunnar sem er búin að vera í Japan. Segja japanskir fjölmiðlar hitann hafa verið um 34 gráður á þeim tíma sem hans var saknað.

„Hann er ekki mikið meiddur, er með nokkrar skrámur og þjáist af örlitlum vökvaskorti,“ hefur AFP eftir Hiroyuki Nishihara, yfirmanni á sjúkrahúsinu þar sem drengurinn fékk aðhlynningu.

„Hann er ekki í neinni lífshættu og útskrifast fljótt af spítalanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert