Fékk líflátshótanir vegna fimmmenninganna

Siraj Ibn Wahhaj, faðir drengsins, var handtekinn í búðunum. Hann …
Siraj Ibn Wahhaj, faðir drengsins, var handtekinn í búðunum. Hann hefur verið ákærður fyrir barnsrán. AFP

Dómari í Bandaríkjunum hefur fengið líflátshótanir eftir að hann lét fimm manns sem handteknir voru í niðurgröfnum búðum í Nýju-Mexíkó lausa gegn tryggingu, að því er BBC greinir frá. Lögregla bjargaði ellefu vannærðum börnum í búðunum, sem voru hálfgert greni, og þar fannst einnig lík fjögurra ára drengs sem sagt er vera af syni eins mannanna.

Fimmmenningarnir voru handteknir eftir að lögregla gerði húsleit í búðunum vegna gruns um að þriggja ára dreng, Abd­ul-Ghani Wahhaj, væri þar að finna. Hann var ekki meðal barn­anna 11 sem var bjargað úr búðunum, en síðar fann lög­regla lík­ams­leif­ar ungs drengs sem sagðar eru vera af honum.

Faðir Abd­ul-Ghani, Siraj Wahhaj, er grunaður um að hafa rænt drengn­um af heim­ili móður hans í Georgíu í des­em­ber á síðasta ári.

Wahhaj var hand­tek­inn á staðnum ásamt þeim Lucas Morten, Jany Leveille, Hujhrah Wahhaj og Su­bhannah Wahhaj. Full­yrðir sak­sókn­ari að fimm­menn­ing­arn­ir séu hættu­leg­ir og hafi ekki átt að fá lausn gegn trygg­ingu. Þeir hafi þjálfað börn­in í að nota vopn og til að standa að skotárás­um á skóla.

„Óskaði þess að hún yrði skorin á háls“

Dómari taldi saksóknara hins vegar ekki hafa fært næg rök fyrir því að almenningi stafaði ógn af fimmmenningunum og lét þá lausa gegn tryggingu. Öllum fimm er gert að vera undir rafrænu eftirliti og vera vikulega í sambandi við lögfræðing sinn.

Úrskurður dómarans, Söruh Backus, hefur hins vegar valdið miklum usla og hefur BBC eftir talsmanni dómstólsins í Nýju-Mexíkó að hann „óskaði þess að hún yrði skorin á háls“. Annar innhringjandi sagðist „vona að einhver kæmi og mölvaði höfuð hennar“.

Þá var Backus sökuð um að vera stuðningsmaður íslamskra hryðjuverkamanna í tölvupósti sem henni barst.

Full­yrða lög­fræðing­ar fimm­menn­ing­anna að þeir sæti órétt­látri meðferð hjá sak­sókn­ara­embætt­inu af því að þeir eru múslim­ar. Því hafn­ar sak­sókn­ari hins veg­ar al­farið.

Dómshúsið í Taos var rýmt um tíma eftir að hótanirnar bárust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert