Kemur með hælisleitendur til Möltu í dag

Björgunarskipið Aquarius kemur í dag til Möltu eftir að ríki Evrópusambandsins komust að samkomulagi um að taka við 141 hælisleitendum sem eru um borð í skipinu. Var þar með komið í veg fyrir enn eina milliríkjadeiluna vegna hælisleitenda sem reyna að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið.

Frönsku hjálparsamtökin SOS Mediterranee, sem starfrækja skipið ásamt samtökunum Læknar án landamæra, sögðu von á því til hafnar síðdegis.

Um borð í Aquarius eru hælisleitendur sem bjargað var í tveimur aðskildum björgunaraðgerðum síðasta föstudag. Yfirvöld á Ítalíu og Möltu neituðu skipinu hins vegar um hafnarleyfi og stefndi í svipaða pattstöðu og kom upp í júní . Þá neituðu ítölsk og maltnesk stjórnvöld skipinu um hafnarleyfi með 630 hælisleitendur um borð og sættu harðri gagnrýni annarra ESB ríkja fyrir.

Spænsk stjórnvöld heimiluðu í kjölfarið Aquarius að koma með fólkið að landi í Valencia.

Í gær samþykktu stjórnvöld í Frakklandi, Þýskalandi, Lúxemborg, Portúgal og Spáni að taka við þessum síðasta hópi hælisleitenda, sem og 114 til viðbótar sem komu til Möltu á mánudag.

Fái aldrei aftur að leggjast að bryggju á Ítalíu

Er þetta fimmti samningur þessa efnis frá því að ítölsk stjórnvöld, sem fram að því höfðu tekið við flestum þeim hælisleitendum sem komu sjóleiðina, neituðu í júní að taka við fleirum.

Ný hægristjórn landsins segir Ítalíu hafa fengið nóg af hælisleitendum, landið hafi tekið við 700.000 slíkum frá 2013. Innanríkisráðherra landsins, Matteo Salvini, hefur raunar heitið því að Aquarius fái aldrei aftur að leggja að bryggju á Ítalíu. Ítalska strandgæslan muni þó eftir sem áður halda áfram að bjarga hælisleitendum.

Talið er að um 1.500 manns hafi farist á leið sinni yfir Miðjarðarhafið þetta árið.

„Hefði aldrei átt að koma upp“

Spænsk yfirvöld féllust á að taka við 60 hælisleitendum, Þýskaland tekur við allt að 50, Portúgal 30 og þá hafa frönsk yfirvöld sagt að þau muni taka við 60 hælisleitendum og Lúxemborg ætlar að taka á móti fimm.

SOS Mediterranee fagnar samkomulaginu og segir að með því sé „deilt út ábyrgð á samevrópskan hátt.

UNHCR, flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, fagnar einnig framtakinu en segir ríki ESB þurfa að koma sér saman um varanlegri lausn.

„Þessi staða hefði aldrei átt að koma upp,“ segir Filippo Grandi yfirmaður UNHCR. Koma verði á samkomulagi sem veiti „gagnsæi og fyrirsjáanleika varðandi það hvar skipin geti lagt að bryggju“. Það er nauðsynlegt eigi að koma í veg fyrir fleiri svona tilfelli,“ sagði Grandi.

Björgunarskipið Aquarius leggur að bryggju í Möltu í dag með …
Björgunarskipið Aquarius leggur að bryggju í Möltu í dag með 141 hælisleitenda um borð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert