Pútín vill hitta Kim fljótlega

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AFP

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, er reiðubúinn til þess að eiga fund með leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, fljótlega, að því er fram kom í fréttum ríkisfréttastofu N-Kóreu.

Pútín bauð Kim og forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, í júní að mæta á efnahagsmálaráðstefnu í Vladivostok í september en ekki er vitað hvort Kim hafi svarað boðinu.

Norðurkóreska fréttastofan hefur eftir Pútín að hann sé reiðubúinn til þess að hitta Kim fljótlega og ræða tengsl ríkjanna og mikilvæg málefni sem snúa að Kóreuskaganum. Engin ákveðin dagsetning var nefnd í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert