Ráðherra kallar eftir afsögnum

Rústir brúargólfsins.
Rústir brúargólfsins. AFP

Fjölskyldur í bílum sínum, fólk á leið til vinnu og fólk á leið í sumarfrí voru á meðal fórnalamba sem létust þegar brúargólf Morandi brúarinnar gaf sig í gærmorgun. Eftir því sem tala látinna hækkar, vinna viðbragðsaðilar að því að bera kennsl á fórnalömb og hina slösuðu eftir hörmungarnar í Genúa. 

Hundruð slökkviliðsmanna á svæðinu reyna nú eftir fremsta megni að finna fleiri eftirlifendur og um 440 íbúar hafa þurft að yfirgefa heimili sín á svæðinu vegna ótta yfirvalda um að aðrir hlutar brúarinnar gefi sig líka. Þá hafa borgaryfirvöld lýst yfir tveggja daga sorg vegna hörmunganna.

Yfirgefin faratæki sem náðu að stöðva í tæka tíð. Um …
Yfirgefin faratæki sem náðu að stöðva í tæka tíð. Um 30-35 bílar hröpuðu 100 metra þegar gólfið brást. AFP

Brúin var byggð á sjöunda áratug síðustu aldar og er mikilvægur þáttur í flutningi varnings og nauðsynja á svæðinu. Brúin er kennd við Riccardo Morandi, ítalskan verkfræðing sem hannaði brúnna á sínum tíma.

Um 200 metra kafli af brú­argólf­inu féll niður um 100 metra á lest­arteina fyr­ir neðan. Viðgerðir á kafl­an­um stóðu yfir, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Autostra­de, vega­vinnu­fyr­ir­tæki sem sá um viðgerðirn­ar. Mik­il rign­ing var á svæðinu um það leyti sem brú­in hrundi og hef­ur breska rík­is­út­varpið það eft­ir sjón­ar­votti að eld­ingu laust niður í brúna rétt áður en hún hrundi.

Viðbrögð stjórnvalda

Samgöngumálaráðherra Ítalíu, Danilo Toninelli, hefur sagt að umsjón og viðhald Autostrade á brúnni hafi verið ófullnægjandi og hefur kallað eftir því að forsvarsmenn fyrirtækisins segi af sér. Þá hefur Toninelli einnig sagst ætla sekta fyrirtækið og svipta það starfsleyfi sínu. Talsmenn fyrirtækisins hafa sagt að brúin hafi verið skoðuð ársfjórðungslega eins og lög í landinu kveða á um.

AFP

Embætti saksóknari í Genúa hefur hafið rannsókn á málinu og kannar hvort um manndráp af gáleysi sé að ræða. Yfirsaksóknari hefur kennt „mannlegum misstökum“ um slysið.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hefur einnig sagt að „enginn sem finnst sekur um þessa hörmung sleppi við refsingu.“ Þá hefur forsætisráðherrann Guiseppe Conte sagt að slíkur harmleikur megi aldrei endurtaka sig.

Tala látinna hækkar enn

Eftir því sem fram kemur á vef BBC er tala látinna komin upp í 39 manns. Þar af hefur verið borið kennsl á 37 fórnalömb og að minnsta kosti þrjú börn eru látin.  

Talið er að tala látinna eigi enn eftir að hækka.
Talið er að tala látinna eigi enn eftir að hækka. AFP

Sextán eftirlifendur fá nú aðhlynningu á sjúkrahúsi. Þar af eru tólf þungt haldnir. Aðstandendum og fjölskyldum fórnalamba hefur verið boðin aðstoð ráðgjafa.

Nöfn fórnalamba hafa tekið að birtast í ítölskum fjölmiðlum í gær og í nótt.

Þriggja manna fjölskylda, Roberto Robbiana, 44 ára, kona hans Ersilia Piccinino, 41 árs og ungur sonur þeirra Samuel létust öll þegar bíll þeirra féll fram af brúnni.

Fótboltaáhugamaðurinn Andrea Cerulli, tveir starfsmenn hjá umhverfisfyrirtækinu Amiu, Luigi Matti Altadonna, 35 ára, Juan Carlos Pastenes, 64 ára og Elisa Bozzo, 34 ára eru einnig á meðal þeirra nafngreindu.

30-35 bílar voru á brúnni þegar hún brást og er því ekki ólíklegt að tala látinna eigi enn eftir að hækka nokkuð.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert