Rændu þingmanni á hraðbraut í Mexíkó

Rodríguez náði kjöri 1. júlí sem þingmaður í neðri deild …
Rodríguez náði kjöri 1. júlí sem þingmaður í neðri deild þingsins fyrir Veracruz-fylki. Henni var rænt þar sem hún var á ferð á hraðbraut í nágrannafylkinu Hidalgo. Skjáskot/Facebook

Nýkjörnum þingmanni hefur verið rænt á hraðbraut í Hidalgo-fylkinu í Mexíkó. Segir BBC að tveir vopnaðir menn hafi tekið þingmanninn, Norma Azucena Rodríguez Zamora, eftir að hafa skotið á bíl hennar með þeim afleiðingum að hann valt. Aðstoðarmaður og bílstjóri Rodríguez slösuðust við þetta, en hún var neydd til að fylgja ræningjunum yfir í bíl þeirra.

BBC segir rúman mánuð frá því að borgarstjóra bæjarins Naupan var rænt og hann myrtur á svipuðum slóðum.

Rodríguez náði kjöri 1. júlí sem þingmaður í neðri deild þingsins fyrir Veracruz-fylki. Hún átti að setjast á þing fyrir PR-flokkinn, sem er vinstra megin við miðju, 1. september. Glæpir og ofbeldisverk eru óvíða tíðari en í Veracruz.

Áður en hún gaf kost á sér á þing var Rodríguez bæjarstjóri í Tihuatlán í Veracruz.

Henni var rænt þar sem hún var á ferð á hraðbraut í nágrannafylkinu Hidalgo, en Genaro Negrete Urbano, bæjarstjóra Naupan, var rænt á svipuðum slóðum í síðasta mánuði. Lík hans fannst í byrjun þessa mánaðar og hafði hann verið skotinn.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Urbano var myrtur, en stjórnmálamenn sem taka þátt í sveitastjórnarmálum eru oft fórnarlömb glæpagengja sem telja gjörðir þeirra hafa slæm áhrif á starfsemi sína.

BBC segir að ofbeldi gegn frambjóðendum í Mexíkó hafi aukist fyrir þingkosningarnar í ár, en 48 frambjóðendur hið minnsta hafa verið myrtir það sem af er ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert