40 ofskömmtuðu í Connecticut

AFP

Maður er í haldi lögreglunnar í Connecticut eftir að yfir 40 manns ofskömmtuðu af fíkniefni sem talið er að hafa verið blandað með ópíóíðum á þriðjudagskvöldið. 

Í frétt BBC kemur fram að fólkið hafði notað fíkniefni sem gengur undir nafninu K2 en það er markaðssett sem svipað efni og maríjúana. Efnið var selt í almenningsgarði og bárust fyrstu tilkynningarnar um ofskömmtun í nágrenni Yale-háskóla á þriðjudagskvöldið og bárust þær fram eftir degi í gær. Einhverjir þeirra eru þungt haldnir og í lífshættu. Alls létust 72 þúsund manns í Bandaríkjunum í fyrra vegna ofskömmtunar. 

Maðurinn sem var handtekinn í gær er grunaður um að tengjast viðskiptum með eiturlyfið sem fólkið hafði keypt. Að sögn læknis við Yale New Have-sjúkrahúsið hafði fíkniefnið verið blandað með fentanyl.

Svo virðist sem neyðarlyfið Naloxon hafi ekki dugað á þá sem ofskömmtuðu en neyðarlyfið get­ur komið í veg fyr­ir and­lát ef það er gefið nægj­an­lega fljótt eft­ir ofskömmt­un ópíóíða. 

Samkvæmt nýrri skýrslu embættis landlæknis í Bandaríkjunum er fentanyl nú orðið banvænna, það er fleiri sem látast af völdum þess, en HIV, í bílslysum og í skotárásum í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert