Örlög Manafort í höndum kviðdómara

Örlög Manafort eru nú í höndum kviðdómara.
Örlög Manafort eru nú í höndum kviðdómara. AFP

Tólf daga málflutningi í sakamáli gegn Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donald Trump Bandaríkjaforseta, er lokið og eru örlög hans nú í höndum kviðdómara.

Ákæran gegn Manafort er í átján liðum og er hann meðal annars sakaður um skattsvik og fjársvik. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að þrjátíu ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur. Hann hefur neitað sök frá upphafi.

„Laug og laug aftur“

„Þetta mál er stútfullt af lygum. Hr. Manafort laug og laug aftur,“ fullyrti varaalríkissaksóknari, Greg Andres, við kviðdómara í gær.

Verjendur Manafort lýstu yfir efasemdum um trúverðugleika Rick Gates aðalvitnis ákæruvaldsins og sögðu hann vera lygara og þjóf. Gates, sem er fyrrverandi viðskiptafélagi, Manafort fékk friðhelgi gegn því að vitna gegn honum í málinu.

Gates lýsti því fyrir kviðdómurum hvernig hann aðstoðaði Manafort við að fela erlendar tekjur í því skyni að komast hjá því að greiða skatta af þeim. Gates viðurkenndi að hafa stolið hundruðum þúsundum dollara frá Manafort.

Richard Westling, einn verjenda Manafort, sagði ákæruvaldið hafa mistekist að sanna sekt skjólstæðings síns.

Fékk tugi milljóna vegna vinnu fyrir Úkraínu

Eng­in brot­anna sem Mana­fort er sakaður um í þess­um rétt­ar­höld­um teng­jast rann­sókn­inni á mögu­legu sam­særi á milli Rússa og kosn­inga­her­ferðar Banda­ríkja­for­seta fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar vest­an­hafs árið 2016 með bein­um hætti, þó að ákær­urn­ar á hend­ur Mana­fort séu sprottn­ar af eft­ir­grennsl­an rann­sak­enda sem vinna að því máli. 

Dómsskjöl málsins gefa í skyn að Mana­fort hafi fengið tugi millj­óna doll­ara vegna vinnu sinn­ar í Úkraínu fyr­ir ráðamenn sem voru hliðholl­ir Rúss­um, en Mana­fort hef­ur lengi starfað sem póli­tísk­ur ráðgjafi. Hann mun síðan, sam­kvæmt skjöl­um máls­ins, hafa skipu­lagt svika­myllu til þess að koma þessu fé fram hjá nef­inu á banda­rísk­um skatta­yf­ir­völd­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert