Aukin kannabisneysla meðal Svía

AFP

Neysla á kannabis hefur aukist í Svíþjóð að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem unnin er af áfengis- og vímuefnaráði (Centralförbundet för alkohol- och narkotika upplysning, CAN). Um er að ræða neyslu meðal fullorðinna einstaklinga, það er á aldrinum 17-84 ára, í fyrra.

Samkvæmt rannsókninni jókst neyslan á kannabis um 2,5-3,6% frá árinu 2013. Aldrei áður hefur mælst jafnmikil neysla á kannabis í Svíþjóð.

Samkvæmt frétt sænska ríkissjónvarpsins var einnig spurt í rannsókninni hversu oft viðkomandi notaði kannabis í mánuði undanfarið ár. Að sögn Mats Ramstedt, sem kom að rannsókninni, notaði þriðjungur aðspurðra kannabis reglulega. Þetta þýði að á milli 80-90 þúsund Svíar neyti kannabis mjög reglulega. 

Hann segir að CAN telji nokkrar ástæður liggja að baki aukinni kannabisneyslu í Svíþjóð. Aðgengið hafi aldrei verið jafnauðvelt og nú eins og upplýsingar frá lögreglu og tollgæslu sýna. Eins hafi viðhorf Svía í garð kannabis breyst og stórum hópi þyki ekkert athugavert að neyta þess. Þetta sýni rannsóknir meðal menntaskólanema þar sem miklu færri nemendur geri sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgir kannabis neyslu en áður var.

Eins skipti miklu máli að nokkur ríki hafi farið þá leið að heimila neyslu kannabis. Einkum og sér í lagi ríki innan Bandaríkjanna. Því telji fólk efnið skaðlaust.

Hér er hægt að lesa sér til um áhrif kannabis á líkamann og tengsl kannabis við geðrof

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert