Gerir Bandaríkin skammarleg í augum barna

William McRaven segir gjörðir Donald Trumps Bandaríkjaforseta gera þjóðina skammarlega …
William McRaven segir gjörðir Donald Trumps Bandaríkjaforseta gera þjóðina skammarlega í augum barna og niðurlægja hana gagnvart öðrum ríkjum. AFP

Gjörðir Donald Trumps Bandaríkjaforseta gera þjóðina skammarlega í augum barna og niðurlægja hana gagnvart öðrum ríkjum. Þetta skrifar William H. McRaven, aðmírállinn sem fór fyrir áhlaupinu á Osama bin Laden í grein sem birt var í Washington Post. Segir aðmírállinn að hann liti á það sem heiður ef Trump afnæmi öryggisheimild sína, líkt og forsetinn gerði á miðvikudag við John Brennan, fyrrverandi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Trump aft­ur­kallað heim­ild Brenn­an til að skoða leyni­leg og viðkvæm gögn og sagði ástæðuna vera „óstöðuga fram­komu og hegðun“ hans. Ástæðan er hins vegar sögð vera sú að Brennan kallaði ítrekaða synjun forsetans á snertiflötum forsetaframboðs síns og afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016 „bull“.

Með skrifum sínum bætist McRaven í hóp á annars tugs hátt settra leyniþjónustumanna sem gagnrýna Trump harðlega og saka hann um að reyna að hefta málfrelsi.

Sagði McRaven aðgerðir Trump minna mest á þær aðferðir sem tíðkuðust á McCarthy-tímanum og að hann hefði sundrað þjóðinni.

„Líkt og flestir aðrir Bandaríkjamenn vonaði ég að þegar þú yrðir forseti myndir þú valda verkefninu og verða sá leiðtogi sem þjóð okkar þarf,“ skrifaði hann. Góður leiðtogi setti velferð annarra framar sinni eigin og reyndi að leiða með góðu fordæmi.

„Þín stjórn hefur sýnt lítið af þessum eiginleikum. Í gengum gjörðir þínar hefurðu gert okkur skammarleg í augum barna okkar, niðurlægt okkur á alþjóðavettvangi og verst af öllu hefurðu klofið okkur sem þjóð.“

Lofaði McRaven því næst Brennan sem „einstaklega ráðvandan mann, sem býr að heiðarleika og siðferðisþreki sem hefur aldrei verið dregið í efa nema af þeim sem ekki þekkja hann.“

Tilraun til að hefta málfrelsi

Auk skrifa McRavens hafa 12 hátt settir leyniþjónustumenn skrifað opið bréf í sameiningu þar sem þeir segja gjörðir Trumps vera „illa íhugaðar og án fordæmis“. Þær hafi „ekkert með það að gera hver ætti og ætti ekki að hafa öryggisheimild – heldur séu þær eingöngu tilraun til að hefta málfrelsi“.

Sex þeirra sem undirrita bréfið eru fyrrverandi forstjórar CIA, fimm eru fyrrverandi varaforstjórar stofnunarinnar. Þá er James Clapper, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustumála landsins, einnig í þessum hópi. Tveir þeirra, Clapper og fyrrverandi CIA-forstjórinn Michael Hayden, eru enn fremur á lista yfir fólk sem Hvíta húsið hefur hótað að svipta öryggisheimild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert