Sakaðir um vatnspyntingar í skólanum

Frá herskólanum í Sandhurst.
Frá herskólanum í Sandhurst. AFP

Herlögreglan í Bretlandi rannsakar nú ásakanir um að tveir nemendur við Konunglega herskólann í Sandhurst hafi beitt nýliða í skólanum vatnspyntingum. Nemendurnir tveir, sem eru liðsforingjaefni hjá skólanum, eiga að hafa haldið nýliðanum niðri, hulið andlit hans með efnisbúti og hellt yfir það vatni sem veldur drukknunartilfinningu.

Atvikið á að hafa átt sér stað 7. ágúst.

Varaliðsforingi skólans, stórfylkisforinginn Bill Wright, hefur sagt, eftir því sem fram kemur á BBC, að hann sé meðvitaður um ásakanirnar.

Hann segist gera miklar kröfur um góða hegðun í skólanum og hefur þess vegna fyrirskipað rannsókn á málinu sem fer fram í gegnum herlögregluna. 

Þá hefur hann einnig sagt að hver sá sem ekki mæti kröfum hans um góða hegðun muni standa frammi fyrir viðeigandi viðurlögum og gæti átt á hættu að vera vikið úr skólanum.

Vatnspyntingar voru notaðar í yfirheyrslum bandarísku leynilögreglunnar CIA í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana í september 2001. Þær voru bannaðar árið 2009 af þáverandi Bandaríkjaforseta, Barack Obama.

Vilhjálmur Bretaprins og bróðir hans Harry, hertoginn af Sussex, sóttu báðir þjálfun í herskólanum í Sandhurst þar sem allir liðsmenn breska hersins eru þjálfaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert