Annar risaskjálfti á Lombok

Fjölmargir íbúar Lombok hafa hafst við í tjöldum frá því …
Fjölmargir íbúar Lombok hafa hafst við í tjöldum frá því skjálftinn mannskæði reið yfir fyrir tveimur vikum. Nú hefur annar risaskjálfti mælst á eyjunni. AFP

Jarðskjálfti, 6,9 að stærð, reið yfir á indónesísku eyjunni Lombok í dag, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku jarðvísindastofnuninni, USGS.

Annar skjálfti varð á eyjunni fyrr í dag, en sá var minni eða af stærðinni 6,3. Tvær vikur eru frá því að mannskæður jarðskjálfti reið yfir á eyjunni og varð sá yfir 400 manns að bana.

Skjálftinn mældist á 20 kílómetra dýpi, um fimm kílómetrum sunnan við bæinn Belanting á austurhluta eyjunnar, samkvæmt upplýsingum frá USGS. 

Flóðbylgjuviðvörun hefur ekki verið gefin út vegna skjálftans og engar fréttir hafa borist af skemmdum eða manntjóni hans vegna.

Hlupu út á götu öskrandi og grátandi

AFP ræddi við íbúa á svæðinu, Agus Salim, en jarðskjálftinn vakti hann af værum svefni. 

„Jarðskjálftinn var ótrúlega harður. Allt hristist," sagði Salim við AFP. Hann var sofandi í tjaldi, enda einn þeirra fjölmörgu sem misstu heimili sitt í jarðskjálftanum fyrir tveimur vikum, en yfir 350.000 manns hafast nú við í tjöldum á Lombok.

„Ég var nýsofnaður er allt byrjaði skyndilega að hristast. Allir hlupu út á götu öskrandi og grátandi," sagði Salim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert