Enn einn skjálfti skekur Lombok

Hermaður sést hér ræða við íbúa eyjunnar eftir skjálftann.
Hermaður sést hér ræða við íbúa eyjunnar eftir skjálftann. AFP

Sterkur jarðskjálfti, 6,3 að stærð, skók indónesísku eyjuna Lombok fyrr í dag, tveimur vikum eftir að jarðskjálfti varð að minnsta kosti 460 manns að bana á svæðinu.

Skjálftinn, sem átti upptök sín á sjö kílómetra dýpi undir austurhluta eyjunnar, fannst um hana alla. Þó var hann töluvert kraftminni en mannskæði skjálftinn sem varð í byrjun mánaðar, og engar fregnir hafa borist af dauðsföllum eða slysum á mönnum.

„Jarðskjálftinn olli skelfingu hjá fólki, sem flúði hús sín,“ segir talsmaður almannavarna Indónesíu, Sutopo Purwo Nugroho, í samtali við sjónvarpsstöðina Metro TV. Bætir hann við að fólk sé í áfalli eftir skjálftana sem riðið hafa yfir undanfarnar vikur.

Skjálftinn sem varð 5. ágúst mældist 6,9 að stærð og jafnaði hann tugþúsundir heimila við jörðu um gjörvalla eyjuna. Tugir þúsunda slösuðust í skjálftanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert