Loka fyrir leiðina frá Gaza til Ísraels

Palestínskir mótmælendur við landamærin á föstudag.
Palestínskir mótmælendur við landamærin á föstudag. AFP

Stjórnvöld í Ísrael hafa lokað fyrir einu fólksflutningaleiðina um landamæri ríkisins við Gaza. Varnarmálaráðherra Ísraels, Avigdor Lieberman, segir lokunina vera vegna ofbeldisatvika við landamærin á föstudag. Þann dag skutu Ísraelar tvo Palestínumenn til bana við landamærin.

Ísraelski herinn segir eldsprengjum hafa verið fleygt að landamæragirðingunni í mótmælum sem þá áttu sér stað, og að nokkur fjöldi Palestínumanna hafi um skeið komist inn á ísraelskt yfirráðasvæði. Engir Ísraelar eru þó sagðir hafa særst í átökunum.

Lokun fólksflutningaleiðarinnar, og mótmælin sem Palestínumenn stóðu fyrir á föstudag, hafa átt sér stað þrátt fyrir tilraunir Egypta og sendifulltrúa SÞ til að koma á langtímavopnahléi á milli Ísraels og Hamas, íslamísku hreyfingarinnar sem fer með stjórn Gaza-svæðisins.

Stjórnvöld í Gaza staðfesta að leiðinni hafi verið lokað, en að undanþágur séu veittar fyrir sjúkraflutninga og fyrir Palestínumenn sem hyggjast snúa aftur til Gaza frá Ísrael.

Einu önnur landamæri Gaza eru við Egyptaland, en leiðinni þangað hefur verið haldið lokaðri að mestu undanfarin ár. Stjórnvöld í Kaíró opnuðu þó aftur fyrir hana um miðjan maí og hefur hún haldist opin nær óslitið síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert