Nigel Farage: „Ég er kominn aftur“

Nigel Farage ætlar að berjast fyrir „alvöruúrsögn“ úr Evrópusambandinu. Hann …
Nigel Farage ætlar að berjast fyrir „alvöruúrsögn“ úr Evrópusambandinu. Hann er ósáttur við stefnuna sem Theresa May og samninganefnd Bretlands taka. AFP

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins UKIP, ætlar að snúa aftur í bresku stjórnmálin. Farage, sem var ötull talsmaður úrsagnar úr Evrópusambandinu, greindi frá því í grein sem birtist í The Telegraph á föstudag, að Farage ætli að ganga til liðs við samtökin „Leave Means Leave“ til þess að fylgja úrsögn Breta úr Evrópusambandinu eftir.

Farage segist hafa áhyggjur af því hvert úrsögn Breta stefni vegna andstöðu fjölmiðla og stjórnmálamanna, sem ætli sér að milda úrsögn Breta eins og hægt er. Gagnrýnir hann Theresu May og kallar hana gungu.

„Það er núna hafið yfir allan vafa að pólítíkusar í Westminster og margir bandamanna þeirra í fjölmiðlunum viðurkenna ekki niðurstöðu Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þeir neita að viðurkenna vilja meirihluta þeirra sem tóku þátt í sögulegu kosningunum árið 2016 og kusu með úrsögn úr Evrópusambandinu. Að mínu mati er þetta versta tilfelli Stokkhólmsheilkennis sem ég hef orðið vitni að,“ skrifar Farage í upphafi greinarinnar.

„Þær 17,4 milljónir manna sem kusu með Brexit gerðu það vegna þess að þær vildu sjálfstæði Bretlands. Þær vildu búa í landi sem ræður lögum sínum og framtíð. Þær vilja ekki lúta yfirvaldi óábyrgu eineltisseggjanna í Brussel.“

„Leave Means Leave“-samtökunum er stýrt af viðskiptamönnunum Richard Tice og John Longworth sem hafa verið dyggir stuðningsmenn Brexit. Farage segist hafa rætt við þá undanfarnar vikur þar sem þeir hafi upplýst hann um að þeir ætli að verja fjármagni til að halda viðburði um allt Bretland til að styrkja málstað úrsagnarhliðarinnar. 

„Ég trúi því að milljónir fylki sér að baki málstaðnum, þar á meðal ég,“ skrifar Farage. „Frá og með deginum í dag hef ég heitið því að styðja Leave Means Leave með ráðum og dáð. Ég ætla að hjálpa þeim að safna fjármagni og fara af stað í kosningabaráttu aftur. Síðustu mánuði, og sérstaklega eftir Chequers-áætlunina, hafa margir spurt mig hvenær ég ætli að snúa aftur. Núna hafið þið svarið: Ég er kominn aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert