Svik í rússneskum geimiðnaði

Starfsmenn í rússneska geimferðabransanum eru sagðir grunaðir um að hafa …
Starfsmenn í rússneska geimferðabransanum eru sagðir grunaðir um að hafa sent vestrænum leyniþjónustum leynilegar upplýsingar um hljóðfrá flugskeyti. AFP

Þrír háttsettir stjórnendur hjá rússneska geimferðafyrirtækinu Energia, sem hannar og framleiðir Soyuz- og Progress-geimskutlurnar, hafa verið handteknir af rússneskum yfirvöldum vegna meintra svika.

Alexei Beloborodov, varaframkvæmdastjóri Energia, og tveir undirmenn hans hafa verið handteknir og ákærðir fyrir hin meintu svik, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá rússneskum rannsakendum.

Leyniþjónustan FSB veitti rannsakendum liðsinni vegna málsins og gerði víða húsleitir á stöðum tengdum rússneska geimferðaiðnaðinum í lok júlímánaðar, samkvæmt því sem fram kemur í rússneskum fjölmiðlum.

Þá var einn maður handtekinn eftir húsleit hjá TsNIImash, helstu geimferðarannsóknarstofnun Rússa.

Samkvæmt rússneska dagblaðinu Kommersant liggja alls tólf starfsmenn í rússneska geimferðabransanum undir grun um að hafa sent vestrænum leyniþjónustum leynilegar upplýsingar um þróun Rússa á hljóðfráum flugskeytum (e. hypersonic missiles), sem geta flogið heimsálfa á milli á margföldum hljóðhraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert