Argento sökuð um kynferðislegt ofbeldi

Jimmy Bennett og Asia Argento.
Jimmy Bennett og Asia Argento. AFP

Ítalska leikkonan Asia Argento, sem var ein af þeim sem leiddu #MeToo-hreyfinguna eftir að hafa sakað bandaríska kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að hafa nauðgað henni, greiddi manni sem sakaði hana um kynferðislegt ofbeldi fyrir að þegja. Maðurinn var 17 ára gamall þegar ofbeldið átti sér stað, segir í frétt New York Times í gær.

Maðurinn sem um ræðir, Jimmy Bennett, er leikari og tónlistarmaður. Hann segir að Argento hafi ráðist á hann á hótelherbergi í Kaliforníu árið 2013. Hann fékk greidda 380 þúsund Bandaríkjadali, 41 milljón króna, fyrir að þegja um málið samkvæmt því sem fram kemur í málsskjölum sem NYT fékk send frá óþekktum aðila. 

Asia Argento.
Asia Argento. AFP

Bennett var nýlega orðinn 17 ára gamall þegar Argento á að hafa beitt hann ofbeldi. Í Kaliforníu eru samþykkisaldursmörkin 18 ára. Hann er 22 ára gamall í dag en Argento er rúmlega fertug.

Dagblaðið greinir frá því að það hafi ítrekað reynt að fá viðbrögð Argento um málið án árangurs.

Samkvæmt skjölunum sem NYT fékk send var gengið frá greiðslusamkomulaginu fyrr á þessu ári.

Meðal gagna sem NYT fékk send var mynd af Argento og Bennett sem tekin var 9. maí 2013  sem Bennett var gert að afhenda Argento auk höfundarréttar að samkomulaginu. Times vitnar í þrjá heimildarmenn sem staðfesta sannleiksgildi skjalanna. 

Bennett og Argento léku saman í myndinni The Heart Is Deceitful Above All Things árið 2004 en þar leikur Argento móður Bennetts.

Jimmy Bennett.
Jimmy Bennett. AFP

Lögmenn Bennetts segja að hún hafi beitt hann kynferðislegu ofbeldi á hótelinu sem hafi haft alvarleg áhrif á andlega heilsu hans og þar af leiðandi afkomu hans. 

Argento sakaði Weinstein um að hafa nauðgað henni þegar hún var 21 árs gömul á hótelherbergi hans í Cannes árið 1997. Málsókn Bennetts hófst um mánuði eftir að Argento greindi frá því opinberlega að Weinstein hefði nauðgað henni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert