Formleg ákæra fyrir að myrða fjölskyldu

Christopher Watts.
Christopher Watts. Ljósmynd Frederick Police Department

Saksóknarar ákærðu Christopher Watts formlega í dag fyrir að hafa myrt ófríska eiginkonu sína og tvær ungar dætur þeirra, nokkrum dögum eftir að hann kom fram í sjónvarpsviðtali og kvaðst vona að þær sneru aftur heim, heilar á húfi.

Watts, sem er 33 ára, var formlega ákærður í fimm liðum fyrir morð af yfirlögðu ráði, í einum lið fyrir að hafa eytt fóstri og í þremur liðum fyrir að hafa átt við liðið lík, að sögn Reuters.

Maðurinn hefur verið í haldi lögreglunnar, án möguleika á lausn gegn tryggingu, eftir að hann var handtekinn, grunaður um að hafa myrt Shannan Watts, 34 ára, og dætur sínar Celeste, 3 ára, og Bellu 4 ára.

Málið hefur vakið þjóðarathygli í Bandaríkjunum og hafa fjölmiðlar beint kastljósi sínu að fyrrverandi námubænum Frederick þar sem um 13 þúsund manns búa.

Fjölskylduvinur lét lögregluna vita af hvarfi Shannan Watts og stúlknanna tveggja síðastliðinn þriðjudag frá heimili þeirra í Frederick, sem er um 50 kílómetra norður af borginni Denver.

Christopher Watts sagðist í viðtali við sjónvarpsstöðina Denver 7 vera í öngum sínum vegna hvarfs fjölskyldu sinnar.

Daginn eftir var hann handtekinn. Líkin fundust á landareign olíufyrirtækis þar sem Christopher starfaði.

Saksóknarar segja að lík Shannan Watts hafi fundist í grunnri gröf. Dætrunum hafði verið komið fyrir í olíutönkum.

Yfirvöld hafa ekki viljað staðfesta frásagnir fjölmiðla um að maðurinn hefði játað að hafa myrt fjölskylduna sína, þar á meðal kyrkt dætur sínar tvær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert